Í Kiljunni annað kvöld verða sýndar svipmyndir af Bókmenntahátíð í Reykjavík.
Við sjáum höfunda eins og Hertu Müller, Piu Tafdrup, Alberto Blanco, Nawal el Sadaawi, Sjón, Einar Kárason og Horacio Castellanos Moya. Rifjum líka upp nöfn nokkurra frægra höfunda sem hafa komið á fyrri hátíðir, þar má nefna Kurt Vonnegut, Günter Grass og Margaret Atwood.
Við skoðum sýningu í Borgarbókasafninu sem fjallar um Irene Némirovsky – það er með ólíkindum hvernig handrit hennar að Franskri svítu, þéttskrifað á lélegan pappír með grænu bleki, varðveittist í tösku ungrar dóttur hennar.
Bragi Kristjónsson verður aftur á sínum stað í lok þáttarins, en Páll Baldvin og Kolbrún fjalla um nýútkomna íslenska skáldsögu, Mannorð eftir Bjarna Bjarnason, og Adam og Evelyn en það er saga eftir Ingo Schulze sem var einn af gestum Bókmenntahátíðarinnar. Sagan gerist sumarið góða 1989 – áður en Múrinn féll.
Herta Müller flutti magnaða ræðu um einræði við opnun Bókmenntahátíðar.