27 þjóðir Evrópu eru aðilar að Evrópusambandinu og nokkrar þjóðir bíða inngöngu.
Þarna eru lýðræðisríki eins og Danmörk, Svíþjóð, Finnland, Frakkland, Bretland, Þýskaland, Holland, Belgía – og svo má lengi telja.
Það að vilja ganga í Evrópusambandið er ekki trúarbrögð hvað sem formaður Framsóknarflokksins segir, slíkt er bara innantómur frasi.
Og það er heldur ekki trúarbrögð að vera á móti því. Það er nefnilega hægt að finna góð rök fyrir því að ganga í ESB en það er líka hægt að finna góð rök fyrir því að vera á móti. Þetta byggir á mati á því hvar Íslendingar telja hagsmunum sínum best borgið og hvar við teljum okkur eiga heima í veröldinni.
Allt mun það væntanlega skýrast betur þegar aðildarsamningur liggur fyrir – sem nú er sagt að geti orðið seinnipartinn á næsta ári. Eins og ég hef sagt áður mun sá dagur renna upp, því aðildarviðræðum verður varla slitið úr þessu – ekki einu sinni þótt tæki við ný ríkisstjórn.
Pressan hefur þetta eftir Sigmundi Davíð:
„að Samfylkingin væri tilbúin til að skipta út krónunni eða gera hvað sem er annað til að ganga í sambandið“.
Ja, það væri skelfileg vá.