Það er makalaust hvað menn reyna að þvæla með hugtakið þjóðareign.
Nú eru ýmsir hlutir í þjóðareign án þess að við drögum það með nokkrum hætti í efa.
Handritin, þjóðgarðar, Þingvellir, Þjóðminjasafnið.
Því er jafnvel haldið fram að það að hlutir séu í þjóðareign sé einhvers konar sovét-kommúnismi.
En í bók Guðna Th. Jóhannessonar er vitnað í þessi orð íhaldsmannsins Gunnars Thoroddsen sem lagði til að í stjórnarskrá stæði:
„Þá skuli bundið í stjórnarskrá að „náttúruauðlindir landsins“ séu „ævarandi eign Íslendinga“ og „auðlindir hafs og hafsbotns innan íslenskrar lögsögu“ að eilífu „þjóðareign“
Og í lögum um stjórn fiskveiða stendur í fyrstu grein:
„Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar. Markmið laga þessara er að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu þeirra og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu. Úthlutun veiðiheimilda samkvæmt lögum þessum myndar ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildum.“
Þetta eru auðlindir sem enginn getur gert tilkall til að eiga. Einhver einstaklingur í landi getur ekki „átt“ fiskinn í sjónum. Það er þjóðin sem hefur yfirráð yfir landhelginni, það var þjóðin sem einhuga háði þorskastríð til að öðlast þessi réttindi.
Í Noregi hafa þeir það fyrirkomulag að arður af olíuauðlindinni miklu rennur í sérstakan sjóð sem ríkið sér um að ávaxta. Hann er þjóðareign – hann á að koma kynslóðum framtíðarinnar til góða.
Ef Íslendingar færu að dæla upp olíu úti á hafi myndi varla neinn fara að mótmæla því að hún væri þjóðareign þótt einkaaðilar kæmu sjálfsagt nálægt vinnslu hennar.