Það er áberandi í umræðu hvað menn í Vestmanneyjum eru stóryrtir. Ég held þeim þyki þetta töff – en það hygg ég að sé misskilningur. Menn sem tala svona setur ofan.
Eygló Harðardóttir, þingmaður úr Eyjum, hefur náð að skera sig úr fyrir vandaðan og ígrundaðan málflutning á þingi. Hún ber af flestum sem sitja á Alþingi núna. Dansar ekki endilega á flokkslínu, sparar yfirleitt stóryrðin.
Eygló skrifar um kvótann, framsal og veðsetningu í grein sem birtist hér á Eyjunni.
Um veðsetninguna segir Eygló:
„Gallinn við veðsetningu á óveiddum afla er braskið og áhrif þess á efnahagslegan stöðugleika. Óbeina veðsetningin við framsal leiddi til verðbólu á aflaheimildum. Ekki virtist skipta máli hvernig fyrirtækin voru rekin heldur fyrst og fremst hversu miklar aflaheimildir það hafði. Þetta endurspeglaðist ekki bara í lánveitingum fjármálafyrirtækja til sjávarútvegsfyrirtækja heldur einnig í öðrum lánveitingum sbr. öll skúffufélögin sem fengu lán til kaupa á hlutabréfum eða einstaka eignum.
Afleiðingarnar þekkjum við öll.
Mín von er að í framtíðinni muni lánveitingar til sjávarútvegsins og annarra greina byggjast á mati á verðmætasköpun viðkomandi fyrirtækja, hæfni stjórnendanna, viðskiptatengslum og raunverulegu tekjustreymi.
Ekki væntingum og spákaupmennsku.“