fbpx
Miðvikudagur 10.september 2025
Eyjan

Dylan sjötugur

Egill Helgason
Þriðjudaginn 24. maí 2011 10:50

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Það sem er hvað skrítnast við Dylan er uppruni hans, hann sprettur nánast úr engu; hann er frá Minnesota, úr smábæ þar sem var engin menning, ekki neitt. Eða eins og segir – staður sem var svo kaldur að það var ekki hægt að gera uppreisn eða hafa neina heimspeki.

Ungur maður hefur Dylan – sem þá hét Zimmerman, Dylansnafnið tekur hann upp eftir Dylan Thomas – ekkert sem bendir til þess að hann muni hafa sérstaka rödd, svo ólíka öllu öðru sem áður hafði heyrst. Svo er eins og hann finni sjálfan sig bókstaflega upp. Kannski er það háttur alvöru listamanna.

Hann fer út á krossgöturnar, eins og sagt er í blústónlist um þá sem gera sérstakan samning við öflugri máttarvöld. Á yfirborðinu gerist ekki annað en að hann fær lánaðar 400 plötur sem hann gleymir að skila, stúderar þetta – kynnist Woody Guthrie, þjóðlagasöngavara sem er við dauðans dyr, fer að syngja eins og hann, klæðir sig eins og hann, með derhúfu og tóbaksklút. Virkar hálf kjánalegur í þessari múnderingu, ungur og horaður gyðingur, hermandi eftir verkalýðshetjunni.

Dylan fór til New York, hékk á kránum í Greenwich Village, sagði alls kyns fjarstæðukenndar sögur af sjálfum sér. Að hann hefði búið við Missisippi og sungið með gömlum berklaveikum blúsurum, skemmt í fjölleikahúsum. Þetta var allt ósatt, en það virðist heldur enginn hafa trúað honum. Þetta var partur af leitinni.

Nokkrum árum síðar er hann orðin eins og hvirfilbylur í músíkinni. Sköpunargáfan er einstök og ótæmandi. Eins og eitthvað andi í gegnum þennan pilt. Í frumgerðinni var Like a Rolling Stone 54 erindi.

Merkilegt er að heyra hvað honum var illa við að endurtaka sig. Aftur og aftur er hann ásakaður um að svíkja allt sem hann stendur fyrir. Þegar hann kom á Newport þjóðlagahátíðina 1965 með rafmagnshljóðfæri ætlaði Pete Seeger að höggva á rafmagnskapalinn til að stöðva hávaðann sem ruddist yfir pempíulega þjóðlagaaðdáendurnar.

Svo fór hann í hljómleikaferð, var alls staðar baulaður niður þar sem hann stóð með rafmagnsgítarinn, blásandi í munnhörpuna. Sumir voru of hræddir til að vera með honum. Hljómborðsleikarinn Al Kooper segist ekki hafa þorað að fara með Dylan til Dallas; þremur árum áður höfðu þeir skotið forseta í þeirri borg.

Aftur svíkur Dylan 1969 – eða það fannst mörgum aðdáendum hans. Í miðri æskuuppreisninni og mótmælunum gegn Vietnam fer hann til Nashville, höfuðborgar kántrísins, gerir angurværa kántríplötu, tekur lagið með Johnny Cash. Þarna er öll pólitík víðs fjarri. Eftir á að hyggja er þetta auðvitað aðdáunarvert; þetta er listamaður sem vill alls ekki láta skipa sér á bás, gengur ekki í takt með neinum.

Þegar Dylan kom hingað á Listahátíð 1990 var honum boðið að hitta forseta Íslands. Svarið sem kom var – Bob Dylan hittir aldrei stjórnmálamenn.

Joan Baez hefur sagt frá fólkinu í mótmælaaðgerðum sem var alltaf að spyrja hvort Bob ætlaði að koma. En hann kom aldrei. Baez vonaði að hún og Dylan myndu leiða kynslóð sína með tónlist og baráttusöngvum. En Dylan kærði sig ekki um það. Hann var pólitískur á sinn hátt, samdi ljóð sem voru sungin í mótmælagöngum út um allan heim – en það var ekki hægt að draga hann sjálfan í mótmælagöngur. Það var sem ætlast til að hann hefði svör við öllu, að hann væri talsmaður kynslóðar sinnar. Hann var ekki nema rúmlega tvítugur. En hann svaraði í raun engu eða þá út í hött. Reykti, með dökk sólgleraugu.

Dylan má líka eiga það að hann er enn skapandi, enn áhugaverður. Hann hefur síðustu ár gefið út plötur sem þykja meistaraverk. Og það er líka hægt að leita aftur í verk eftir hann sem mönnum yfirsást. Ég uppgötvaði til dæmis um daginn stórkoslegan ópus eftir hann, Brownesville Girl sem er af plötunni Knocked Out Loaded. Það hlustuðu ekki margir á hana á sínum tíma, þá þótti Dylan vera á niðurlægingartímabili.

Að sönnu heldur Dylan misjafna tónleika. Röddin er orðin býsna hás. Hann hefur líka verið meira og minna á tónleikaferðalagi í meira en þrjá áratugi. Það er kallað hljómleikaferðin endalausa – the never ending tour. Hann spilar nýtt efni meðan flestir jafnaldrar hans eru að leika gömlu lögin aftur og aftur. Það væri eins hægt að hafa duftker á sviðinu – það er útséð að muni koma frumleg nóta framar úr gíturum þeirra. Þegar Dylan spilar gömlu lögin er hann vís með að breyta þeim – og áheyrendur eru ekki endilega ánægðir með það. Einn af meðleikurum hans á tónleikunum í Laugardalshöll 1990, gítaristinn G.E. Smith, sagði mér að þeir í hljómsveitinni vissu aldrei hvaða lög Dylan ætlaði að spila. Það gat verið svolítið erfitt því lögin sem hann hefur samið fara sjálfsagt að nálgast þúsundið.

Smith sagði mér aðra sögu sem sýnir hvað Dylan er sérstakur.

Hann sagði að Dylan ætti það til að hverfa á tónleikaferðalögum. Hann vildi heldur ekki búa á mjög fínum hótelum, þar fyndist honum vera þrengt að sér.

Stuttu áður en hann spilaði hérna hafði Dylan haldið tónleika í Ísrael. Eftir þá hvarf hann. Það var farið að leita.

Nokkrum dögum síðar kom hann í leitirnar. Hafði þá farið til Kaíró. Keypt sér kufl með hettu að hætti þarlendra – og gengið um göturnar án þess að neinn bæri kennsl á hann.

Önnur saga er um að hann eigi það til að dúkka upp á skrítnustu stöðum. Ein er á þá leið að menn hafi orðið varir við undarlegan mann í hettupeysu við hús í Long Branch í New Jersey.

Menn fóru að athuga hvað þetta væri, hvort þarna væri þjófur á ferð. Nei, þá var það Bob Dylan að skoða æskuheimili Bruce Springsteen.

600full-bob-dylan

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 5 dögum

Nína Richter skrifar: Popúlismi er tæki og við erum fólk

Nína Richter skrifar: Popúlismi er tæki og við erum fólk
EyjanFastir pennar
Fyrir 6 dögum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Utanríkispólitík stjórnarandstöðunnar

Þorsteinn Pálsson skrifar: Utanríkispólitík stjórnarandstöðunnar
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Sigmundur Ernir skrifar: Ekki vera það sem þú ert

Sigmundur Ernir skrifar: Ekki vera það sem þú ert
Eyjan
Fyrir 1 viku

Ólafur tekinn við af Hildi

Ólafur tekinn við af Hildi