Sinfóníuhljómsveitin býður okkur að komast í snertingu við merka sögu.
Gestastjórnandinn Gennadíj Rostedsvenskíj stjórnar í kvöld stórum verkum eftir Shostakovitsj og Schnittke – tvö af höfuðtónskáldum Rússlands á síðustu öld.
Stjórnandinn þekkti báða þessa menn, hann stjórnaði frumflutningi á verkum eftir þá og hefur hljóðritað mörg þeirra. Ég á stóran kassa einhvers staðar þar sem eru hljómplötur frá tíma Sovétríkjana, meðal annars sinfóníur eftir Shostakovitsj í stjórn Rhostedsvenskíjs, ég keypti þetta fyrir austan tjald í gamla daga.
Þeir þurftu allir að búa við hið hroðalega stjórnarfar í Sovétríkjunum – en list þeirra er meðal þess sem hæst rís á tuttugustu öld, mitt í kúguninni og hinu hryllilega andleysi stjórnarfarsins sem þoldi ekki sjálfstæða hugsun eða sjáfstæða sköpun.
Í næstu viku stjórnar Rostedsvenskíj svo verkum eftir annan höfuðsnilling, Sergei Prokofíev.
Sögurnar af þessum mönnum eru margar og heillandi. Shostakovitsj var taugahrúga, hann átti í eilífri glímu við hinn stóra skugga Stalíns. Stundum var honum hampað eins og þjóðhetju, en stundum var list hans líka fordæmd. Sinfónía númer 8, sem Rostedsvenskíj stjórnar í Háskólabíói í kvöld, var bönnuð eftir að Zhadanov, menningarkommisar Stalíns, skar upp herör gegn „formalisma“ eftir stríðið. Ólíkt henni hafði 7. sinfóníunni, sem kennd er við Leníngrad, verið hampað sem miklum hetjuóði.
Prokofíev komst undan bolsévíkastjórninni og bjó í París. Stalín tókst að telja hann á að snúa aftur til Sovétríkjanna og þar bjó hann til dauðadags. Hann var sakaður um formalisma rétt eins og Shostakovitsj og það var þrengt að honum á ýmsan hátt. Prokofíev andaðist 5. mars 1953, sama dag og andlát Stalíns var tilkynnt. Í dagblaðinu Prövdu var sagt frá dauða Stalín á fyrstu 23 blaðsíðunum, á blaðsíðu 24 er sagt að hafi verið lítil frétt um lát Prokofíevs.
Alfred Schnittke var yngri maður en hinir tveir, fæddur 1934, dáinn 1998. Uppruni hans er blandaður, í föðurætt var hann af gyðingaættum, en í móðurættina var hann af kyni svokallaðra Volgu-Þjóðverja. Schnittke átti erfitt uppdráttar innan Sovétríkjanna, verk hans voru bönnuð og hann fékk ekki að ferðast til útlanda. Hann lifði aðallega af því að semja tónlist fyrir mikinn fjölda kvikmynda, en meðfram stundaði hann list sína og var afkastamikill miðað við að hann átti við sífellda vanheilsu að stríða.