Merkilegur öldungur verður gestur í Kiljunni annað kvöld. Það er Pétur M. Jónasson, vatnalíffræðingur og prófessor í Kaupmannahöfn. Pétur er níræður að aldri en ótrúlega hress. Hann er einn virtasti vísindamaður þjóðarinnar, vísindagreinar hans eru hundrað talsins og hann hefur gefið út merkilegar bækur, meðal annars grundvallarrit um Þingvallavatn sem er að koma út i nýrri útgáfu hjá bókafélaginu Opnu.
Í viðtalinu ræðir Pétur um hið einstæða náttúrufar í Þingvallavatni en líka um Mývatn sem hann rannsakaði á árum áður. Hann segir meðal annars frá því hvernig tókst naumlega að bjarga Mývatni frá því að vera eyðilagt með virkjunum.
Við fjöllum um heimspekinginn Friedrich Nietzsche í tilefni af íslenskri þýðingu á bókinni Af sifjafræði siðferðisins sem út er kominn í röð Lærdómsrita bókmenntafélagsins. Nietzsche var sérstæður og merkur heimspekingur, en æviferill hans var líka allur hinn skrítnasti.
Við minnumst Thors Vilhjálmssonar, skoðum meðal annars nokkrar af eldri bókum hans, og svo fjöllum við Kolbrún og Páll Baldvin um bók sem nefnist Mannlíf við Sund eftir Þorgrím Gestsson. Þetta er byggðasaga Laugarness – svæðis í Reykjavík sem byggðist snemma og hafði sérstöðu. Þar var meðal annars Holdsveikraspítalinn og gömlu sundlaugarnar.
Bragi talar um Jökul Jakobsson.