Bankar eru fjarska óvinsælir – og það er ekki séríslenskt fyrirbæri. Í Bandaríkjunum er spurt hvers vegna ekki sé búið að loka Wall Street inni. Sjálfur Mervyn King, seðlabankastjóri Bretlands, er kominn í stríð við bankana í landinu og segir að þeir misnoti viðskiptavini sína í leit að skjótfengnum gróða. Í Danmörku fellur Amagerbankinn, einn stærsti banki landsins – þar eins og annars staðar þarf ríkið að dæla peningum í bankana.
Hér á Íslandi beinist athyglin að ofboðslegum hagnaði banka, aðeins tveimur og hálfu ári eftir fall þeirra – á sama tíma og skuldsettur almenningur lepur dauðann úr skel. Og svo eru það ofurlaunin, ég skrifaði um það í gær að það væri svona sem menn legðu aftur af stað niður heljarslóðina, fyrst þarf að borga einum ofurlaun, svo hinum næsta og þannig koll af kolli – ruglið er innbyggt í kerfið. Það eru einfaldlega stéttarhagsmunir sem ráða og margir sem hafa hag af því að þetta sé svona.
En almenningur hefur auðvitað engan hag af því, enda er engin forsenda fyrir því að bankastjórnendur séu með miklu hærra kaup en gjaldkerinn sem situr á neðstu hæð bankans eða leikskólakennarinn sem passar börnin þeirra.
Ég var að velta þessu fyrir mér í gær, rifja upp tímann þegar bankarnir voru ekki svona voldugir, ekki svona hátt yfir allt hafnir í samfélaginu. Þeir voru svosem engar fyrirmyndarstofnanir, nei alls ekki. Þeir voru í höndunum á stjórnmálaflokkunum, stjornendur bankanna voru kommisarar úr flokkunum – þetta var gamalt spillingarkerfi. En bankarnir voru ekki svona alltumlykjandi.
Ég man að ég fékk dálítið vonda tilfinningu á sínum tíma þegar maður hætti að geta fengið útborguð laun án þess að það færi í gegnum banka. Á einhverjum tímapunkti varð það líkt og nauðsyn að vera alltaf í bankanum, án þess að neinn hefði í raun ákveðið það.
Þegar ég byrjaði fyrst að vinna fyrir mér fékk maður launin bara í umslagi, peningaseðla. Svo var það ávísun, en loks gat enginn fengið greidd laun nema að hafa reikning í banka.
Jú, kannski er það þægilegast, en þegar ég hugsa til baka þá finnst mér eins og þetta hafi verið ákveðið upphaf. Við vorum öll skylduð til að vera sífellt í bankaviðskiptum – án þess að við værum spurð.