Það er mikið talað um áróður varðandi Icesave, en málið er í raun ekki svo snúið. Flest rökin eru löngu komin fram.
Það eru komnar upplýsingar frá samninganefndinni síðustu um hvað Icesave muni kosta íslenska skattgreiðendur. Þetta er ekki svo há tala miðað við aðrar fjárhæðir sem maður hefur séð eftir hrunið.
Á móti er sagt að í þessu sé óvissa. Gengi krónunnar gæti lækkað og heimtur úr þrotabúi Landsbankans orðið minni en ætlað er.
Á móti því er sagt að heimturnar verði jafnvel betri en talið er og að ef gengi krónunnar fari að lækka séum við hvort sem er í slæmum málum.
Á móti því er sagt að okkur liggi ekkert á – að þetta hafi dregist svo á langinn að við höfum alveg efni á því að bíða og sjá.
Á móti því er sagt að þetta skaði íslenskt efnahagslíf og lánshæfi Íslands.
Á móti því er sagt að víst hafi íslensk fyrirtæki fengið lán og að Ísland sé bara að koma vel út úr kreppunni þrátt fyrir Icesave.
Öll þessi rök hafa verið reifuð fram og til baka.
En svo endar þetta í einum punkti;
Það er hægt að rekja í löngu máli hvers vegna og hvernig við eigum að borga Icesave.
Mótrökin við því: Við eigum ekki að borga skuldir óreiðumanna!
Þetta eru grundvallarrök, prinsípprök sem verður trauðla haggað, hvað sem líður öllu tali um endurheimtur eða stöðu þjóðarbúsins. Það er spurning hvort menn vilja bergja á ógeðsdrykknum eða ekki.
Við komumst ekkert lengra með umræðuna en þetta og í raun væri hægt að kjósa strax á morgun.