Guðríður Þorbjarnardóttir er gott dæmi um það hvernig við erum sífellt að hanna fortíðina – framleiða sögu, ef svo má segja.
Ólafur Ragnar Grímsson fer til Rómar og hittir páfann. Hann gefur honum styttu af Guðríði Þorbjarnardóttur.
Þegar ég var að alast upp var sjaldan talað um Guðríði Þorbjarnardóttur. Það var hins vegar einstöku sinnum minnst á mann hennar, Þorfinn karlsefni. Hann var samt ekkert voða frægur. Mig minnir að hann hafi verið á einu frímerki sem ég átti í safninu mínu.
Svo þarf aðeins að laga söguna svo hún hæfi samtímanum betur. Þá er Guðríður tekin fram. Henni er hampað sem konunni sem ferðaðist víða og átti barn í Ameríku, fyrsta barnið sem fæddist í þeirri heimsálfu.
Eða réttar sagt – fyrsta hvíta barnið.
Nú er talað um það í fréttum að Guðríður hafi gengið til Rómar. Í einni fréttinni sagði meira að segja að hún hefði farið og gefið páfanum skýrslu um ferðir sínar.
Í Grænlendingasögu, sem er eina heimildin um þetta, segir ekki annað en eftirfarandi:
„Og er Snorri var kvongaður þá fór Guðríður utan og gekk suður og kom út aftur til bús Snorra sonar síns og hafði hann þá látið gera kirkju í Glaumbæ. Síðan varð Guðríður nunna og einsetukona og var þar meðan hún lifði.“
Það er semsagt ekki vitað hvort Guðríður fór til Rómar eða eitthvert annað. Einu orðin sem við höfum eru „gekk suður“.
Ekki að þetta sé ekki merkileg saga – það má vel nota hana og hampa henni. En í þessu felst lærdómur um það hvernig við tökum söguna og notum hana eftir hentugleikum – og hvernig opinberar útgáfur af henni verða til.
Um þetta sagði Þorgerður Þorvaldsdóttir sagn- og kynjafræðingur á ráðstefnu árið 2001, tilvitnunin birtist í nýrri bók eftir Bjarka Valtýsson sem nefnist Íslensk menningarpólitík.
„Landafundirnir eiga sérstaklega að vera söluvænn atburður, 1000 ára gömul ímynd sem engir Íslendingar kannast við á neinn hátt. Guðríður Þorbjarnardóttir er allt í einu orðin ofsaleg þjóðhetja, fyrsta konan sem eignaðist hvítt barn í Ameríku. Ég man ekki eftir að hafa nokkurn tíma heyrt á þessa konu minnst.“