Stundum koma dagar þar sem maður verður vitni af tilefnislausu fjaðrafoki í fjölmiðlum.
Eins og þegar birtast fréttir um að Atlanta flugfélagið sé að flytja hergögn fyrir Bandaríkjamenn til Afganistan.
Nú getur verið að þetta sé á misskilningi byggt, en aðalatriðið er þó að Íslendingar eru aðili að Nató sem er þátttakandi í hernaðinum í Afganistan – hversu langt sem það er nú frá upprunalegum markmiðum þessa hernaðarbandalags. Meðan svo er getur varla verið mikið athugavert við að íslenskt flugfélag standi í slíkri starfsemi.
Svo er það skólastjóri Menntaskólans Hraðbrautar sem hefur orðið uppvís að því að gera þessa menntastofnun að féþúfu fyrir sjálfan sig.
Hann kemur í fjölmiðla og segir að það sé „hápólitísk aðför“ þegar menntamálaráðuneytið vill ekki halda áfram að púkka upp á hann.
Heitir þetta ekki að kunna ekki að skammast sín?