Það er varla gæfulegt að blanda saman kosningum um Icesave og kosningum til Stjórnlagaþings.
Nógu er flækjustigið í Icesavemálinu hátt.
Stjórnlagaþingskosningin útheimtir vandaðan og góðan undirbúning. Mistök frá því í kosningunum mega ekki endurtaka sig.
Þá á ég ekki við það sem Hæstiréttur notaði til að ógilda kosninguna – rök réttarins voru mörg afskaplega klén.
Heldur frekar aðdraganda kosninganna og kynningu á frambjóðendum sem var alls ekki nógu góð.
Þessu er varla hægt að flýta – jafnvel þótt mörgum þyki sýnt að ekki megi tefja mikið að breyta ýmsum greinum stjórnarskrárinnar.
Annars getur vel verið að fleiri þjóðaratkvæðagreiðslur séu á döfinni.
Ný skoðanakönnun sýnir að 70 prósent þjóðarinnar eru andsnúin núverandi stjórnkerfi fiskveiða.
Einhvern tíma hlýtur ríkisstjórnin að taka af skarið og reyna að koma í gegnum þingið frumvarpi til að breyta kerfinu. Hún getur ekki heykst á því miklu lengur. Þetta mun valda miklum deilum, bæði á þingi og úti í samfélaginu.
Það hefur verið tekist á um samningaleið svokallaða, fyrningarleið og svo hefur hópur fólks af Vestfjörðum lagt fram sínar tillögur.
Miðað við þá stöðu sem er uppi í stjórnkerfinu virðist einsýnt að það fari í þjóðaratkvæðagreiðslu á einhverjum tímapunkti – þá líklega fyrir tilstuðlan forseta.