Sigrún Davíðsdóttir flutti pistil um Magma og HS Orku og hugsanleg kaup lífeyrissjóða í Speglinum. Þar segir meðal annars:
— — —
Spegillinn hefur áður reifað raunasögu erlendra fjárfestinga á Íslandi og ekki bæta gjaldeyrishöftin úr skák. Það vakti því vonir að erlendur fjárfestir, Magma Energy, hyggði á fjárfestingar í orkugeiranum. Athygli Magma beindist að HS Orku. Í ársreikningum 2008 sagði að það væri ,óvissa um áframhaldandi rekstrarhæfi félagsins.’ Með öðrum orðum þá rambaði HS Orka á barmi gjaldþrots í byrjun 2009.
Magma keypti meðal annars hlut Orkuveitu Reykjavíkur í HS Orku. Orkuveitan er annað orkufyrirtæki sem stendur illa eftir skuldsetningu og óstjórn fyrri ára. Það er gullin regla að stofnanir í almannaeigu selji ekki eignir nema gegn beinhörðum peningum. Samt fékk Magma sjö ára kúlulán frá Orkuveitunni og fleira orkaði þar tvímælis.
Í fyrstu ætlaði Magma ekki að eignast HS Orku í heild. En svo keypti Magma 98,5 prósent í fyrirtækinu. Þessi formálalausa breyting vakti þá tilfinningu að eigendur Magma hefðu ekki komið hreint fram í upphafi. Þar við bættist að Magma á HS Orku um eignalaust skúffufélag í Svíþjóð, að þarna eru lán gegn veði í bréfum og að eignarhaldið á Magma er í óljósum strúktúr. Allt þetta hefur vakið óþægileg hugrenningatengsl og grafið undan traustinu á Magma.
Uppgjör Magma fyrir seinni hluta síðasta árs liggur nú fyrir. Ross Beaty aðaleigandi og forstjóri Magma sagði fyrir nokkrum dögum að jarðvarmageirinn hafi ekki skilað þeim hagnaði sem búist var við. Nú virðist Magma stefna á aðra kúvendingu. Félagið er í viðræðum við hóp íslenskra lífeyrissjóða um að þeir kaupi fjórðung til fimmtung í HS Orku.
Samkvæmt uppgjörinu næstum þrefaldaðist tap Magma á síðasta ári, úr 3,5 milljónum dala í rúmar 9 milljónir dala. Lykiltölur eins og hagnaður af eigið fé, eignum og fjárfestingum, allt saman ábendingar um hversu vel fyrirtækinu er stjórnað, eru allar neikvæðar, á bilinu 14-20 prósent.
Kúvending Magma í HS Orku er því kannski skiljanleg. Miðað við að Magma fékk seljendalán með umdeildum vöxtum fyrir kaupunum og að Magma greiddi mjög sennilega að hluta í aflandskrónum þá má vel sýna fram á að sala í beinhörðum peningum muni í raun borga upp hlut Magma í HS Orku.