Listinn yfir gestina í Silfri Egils sem Vignir Már Lýðsson tók saman er nokkuð góður.
Það er auðvitað hægt að túlka svona á ýmsan hátt – til dæmis með því að draga einhverja línu milli hægri og vinstri sem getur aldrei verið nema huglægt mat.
Ég verð að viðurkenna að ég hef ekki svona lista handbæran, hef ekki mátt vera að því að halda svona bókhald, og ég veit ekki hvaðan Vignir hefur upplýsingarnar. Þær eru reyndar ekki að öllu leyti réttar sýnist mér, en skeikar varla miklu.
Jafnræði milli flokka virðist vera nokkuð gott en mér sýnist fremur halla á ríkisstjórnina en hitt. Óþægir stjórnarþingmenn eiga greiðari leið í þáttinn en þeir sem fara eftir línunni – það er í raun eðlilegt – fjölmiðlar eiga að halda uppi gagnrýni á stjórnvöld.
Annars er merkilegt hversu margt fólk hefur komið í þáttinn og hvað það er fjölbreyttur hópur.
Hér er listinn yfir þá sem hafa komið oftast í þáttinn frá hruni samkvæmt Vigni:
Sigrún Davíðsdóttir (9)
Lilja Mósesdóttir (7)
Ólafur Arnarson (7)
Gunnar Smári Egilsson (6)
Andri Geir Arinbjarnarson (6)
Benedikt Sigurðarson (6)
Bjarni Benediktsson (6)
Þór Saari (5)
Þorvaldur Gylfason (5)
Eiríkur Bergmann Einarsson (5)
Eva Joly (5)
Jón Baldvin Hannibalsson (5)
Marinó G. Njálsson (5)
Jóhann Hauksson (5)
Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir (5)
Jóhannes Björn Lúðvíksson (5)
Agnes Bragadóttir (5)
Jón Daníelsson (5)
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (5)
Vilhjálmur Bjarnason (5)
Þetta segir ekki alla söguna, því alls hafa samkvæmt listanum komið 363 gestir í þáttinn á þessu tímabili.
Það er mikill fjöldi og segir sína sögu að 240 viðmælendur hafa komið einu sinni í þáttinn á þessum tíma. Það er semsagt fráleitt að segja að sama fólkið sé alltaf í Silfrinu.
Ekki veit ég hvernig Vigni tekst að flokka allan þennan fjölda í vinstri eða hægri – og eins og ég sagði áður þá veltur það mikið á því hvar við drögum línuna.
Það er líka áberandi ef rennt er yfir listann hversu hlutur stjórnmálamanna er í rauninni rýr – því var fagnað eftir hrun þegar stjórnmálamenn komu lítið í þáttinn, það var kannski nauðsynlegt skref, en auðvitað höldum við ekki uppi þjóðfélagsumræðu án þátttöku þeirra.
Við þurfum frekar að hvetja þá til að bæta samræðulist sína.