Það er talað um „takmarkaða ábyrgð“ eigenda hlutafélaga.
Takmörkuð ábyrgð felst meðal annars í því að menn geta látið félög fara á hausin og labbað burt eins og ekkert hafi í skorist.
Stundum getur takmörkuð ábyrgð verið réttlætanleg – því skal ekki á móti mælt.
En í tilvikum stærstu eigenda íslensku bankanna er það varla.
Það vill nefnilega þannig til að það voru eigendur bankanna sem fengu stærstu lánin úr bönkunum..
Eins og hefur verð bent á blóðmjólkuðu eigendurnir bankana – það er ein ástæðan fyrir því að þeir féllu.
Takmörkuð ábyrgð getur ekki átt við í þessu tilviki.
Það er ástæða til að taka undir með Birni Þór Sigbjörnssyni sem skrifar í leiðara Fréttablaðsins í dag:
„Það voru ánægjuleg tíðindi þegar spurðist í gær að hreingerningafólkið í gamla Landsbankanum væri fyrir alvöru að meta ábyrgð stjórnarmanna í bankanum á gjörningum sem með öðru leiddu til hruns hans. Pressan varð fyrst til að segja frá því að viðbragða og skýringa stjórnarmannanna, auk bankastjóranna tveggja, á tilteknum málum hafi verið leitað.
Fyrir slitastjórn bankans vakir að kanna hvort efni og ástæða sé til að sækja bætur í vasa stjórnarmannanna. Hvort þeir hafi með athöfnum eða athafnaleysi átt slíkan þátt í falli bankans að þeir beri á því ábyrgð að lögum og geti þurft að gjalda fyrir með eigin aurum.“