Ég tók þátt í smáumræðum á Facebook um íslenska þjóðsönginn.
Sagði að mér þætti lagið frekar leiðinlegt og líka ljóðið. Bara út frá hreinu tónlistar- og bókmenntagildi – við skulum láta þjóðerniskenndina til hliðar.
Þetta er kannski viðkvæmt mál, en það má benda á að þjóðsöngvar eru oft frekar slæmir. Hvað með til dæmis Deutschland über Alles eða God Save the Queen?
Franski þjóðsöngurinn La Marseillaise er hins vegar ansi flottur, enda á lagið sér merkilega sögu, sem og sá bandaríski Star Spangled Banner að ógleymdum þeim sænska sem heitir Du gamla, du fria.
Ég fór í framhaldi af þessu að skoða seinni erindin í þjóðsöngnum, þessum sálmi Matthíasar Jochumsonar sem Halldór Laxness kallaði únítarískan lofsöng. Seinni erindin tvö sem sjaldan eru sungin hjóma svo:
Ó, guð, ó, guð! Vér föllum fram
og fórnum þér brennandi, brennandi sál,
guð faðir, vor drottinn frá kyni til kyns,
og vér kvökum vort helgasta mál.
Vér kvökum og þökkum í þúsund ár,
því þú ert vort einasta skjól.
Vér kvökum og þökkum með titrandi tár,
því þú tilbjóst vort forlagahjól.
:; Íslands þúsund ár, ;:
voru morgunsins húmköldu, hrynjandi tár,
sem hitna við skínandi sól.
Ó, guð vors lands! Ó, lands vors guð!
Vér lifum sem blaktandi, blaktandi strá.,
Vér deyjum, ef þú ert ei ljós það og líf,
sem að lyftir oss duftinu frá.
Ó, vert þú hvern morgun vort ljúfasta líf,
vor leiðtogi í daganna þraut
og á kvöldin vor himneska hvíld og vor hlíf
og vor hertogi á þjóðlífsins braut.
:; Íslands þúsund ár, ;:
verði gróandi þjóðlíf með þverrandi tár,
sem þroskast á guðsríkis braut.