Vinur minn Sölvi Tryggvason skrifar dálítið einkennilegan pistil um listamenn og leiðindi.
Nú er kannski ekki mikil ástæða til að svara þessu hjá honum, en ég spyr samt hvort Sölvi hafi kannski ruglast á áratug.
Hann talar um listamenn sem séu heilsulausir og illa til fara.
Nú hef ég verið að skoða leiði skálda í kirkjugörðum og velti í framhaldi af því fyrir mér hvort Sölvi eigi við kreppuárin eða árin eftir stríð. Þá voru mörg skáld og listamenn heilsulaus og illa til fara. Sumir vegna fátæktar, aðrir vegna vímuefnaneyslu. Á þessum tíma þótti nokkuð við hæfi að listamenn eyðileggðu sig á brennivíni – það var reyndar ekki séríslenskt fyrirbæri.
Núorðið sýnast mér listamenn upp til hópa vera mjög penir. Þetta er gjarnan fjölskyldufólk, það er vel klætt og þrifið, er ekki hættara við ofneyslu vímugjafa en öðrum Íslendingum. Það er vitað núorðið að dóp og drykkja hjálpa yfirleitt ekki til við listsköpun.
Sölvi talar um að snobbað sé fyrir leiðindum. Ég held reyndar að það sé ekki snobbað fyrir leiðindum, það er nefnilega miklu meira snobbað fyrir því sem á að vera skemmtilegt en er það kannski ekki. Það sem eru leiðindi í huga eins er skemmtilegt í huga annars. Mér verður til dæmis ómótt af leiðindum ef ég þarf að horfa á breska eða bandaríska framhaldsþætti, ég held það séu mörg ár síðan ég sat í gegnum heilan svoleiðis þátt. Það þýðir ekki að ræða við mig um CSI eða Two and a Half Man eða Morse.
Fjölskyldu minni finnst ég vera mjög leiðinlegur – af því ég tuða svo mikið yfir þessum þáttum.
Hins vegar verð ég mjög glaður ef ég rekst á þögla kvikmynd í sjónvarpi – sem gerist reyndar mjög sjaldan. Ég þakka kvikmyndauppeldinu sem ég fékk í Fjalakettinum hjá Friðriki Þór Friðrikssyni. Þar sat maður við frekar lélegar aðstæður í Tjarnarbíói og horfði á kvikmyndir sem margir mundu sjálfsagt telja afar leiðinlegar. En listin snýst um fleira en snögga afþreyingu, hún kostar stundum erfiði og fyrirhöfn – þarna lærði maður að meta kvikmyndir frá hinum klassíska tíma þegar staðlaðar hugmyndir um skemmtanagildi höfðu ekki tekið öll völd.