Sveinn Valfells, eðlisfræðingur og hagfræðingur, sendir þessa grein:
— — —
Hæstiréttur og heilbrigð umræða
Í grein á Pressunni í gær minnist formaður Lögmannafélags á „nýja lögspekinga“ sem eru „að sligast af réttlæti, hafa boðað nýja lögfræði. Í stað þess að fara eftir texta laganna og öðrum lögskýringargögnum á að fara eftir ‘anda’ laganna og ‘réttlætistilfinningu þjóðarinnar’.“
Í grein sinni fjallar formaður Lögmannafélagsins um persónur sem fjallað hafa um dóma Hæstaréttar um Stjórnlagaþing og kaup stjórnar Glitnis á hlutabréfum fráfarandi forstjóra. Formaður Lögmannafélagsins fjallar ekki efnislega um dómana sjálfa eða röksemdir gagnrýnenda. Ætli formaðurinn sé rökþrota?
Á Íslandi sem annars staðar eiga lög vera skrifuð þannig að venjulegt fólk skilji þau án mikillar túlkunar, annars er ekki hægt að fara eftir þeim. Sama á við dóma sem dómstólar kveða upp. Ef dómar Hæstaréttar eru óskiljanlegir venjulegu fólki þá hlýtur að vera eitthvað að hjá Hæstarétti.
Málefnaleg umræða um lög og dóma er forsenda réttaríkis. Sé formanni Lögmannafélagsins annt um réttarfar á Íslandi ætti hann að fagna umræðunni og taka þátt. Með málefnalegum hætti, ekki persónulegum.