Elvar Reykjalín, fiskverkandi á Hauganesi, sendi þessa grein.
— — —
Ég er stofnfjáraðili, ég var blekktur og ég mótmæli greiðsluskyldu.
Hversvegna segi ég þetta.
Í samningalögum, 36. grein segir.
Samningi má víkja til hliðar í heild eða að hluta, eða breyta, ef það yrði talið ósanngjarnt eða andstætt góðri viðskiptavenju að bera hann fyrir sig, ( sbr. þó 36.gr.c ) Hið sama á við um aðra löggjörninga.
FELLUR ÞESSI STOFNFJÁRAUKNING OG LÁNASAMNINGUR UNDIR SANNGJARNA OG GÓÐA VIÐSKIPTAVENJU ?
Förum aðeins yfir það.
Nú þegar hamrað er á stofnfjáreigendum víða um land að borga lánin sem tekin voru til kaupa á stofnbréfunum sé ég mig knúinn til að fara aðeins yfir sögu stofnfjáraukningar í Sparisjóði Svarfdæla, efalaust hefur þetta verið gert á svipaðan hátt í öðrum sjóðum en hér fjalla ég bara um Sparisjóð Svarfdæla því þar þekki ég best til.
Ekki veit ég nákvæmlega hvernig sú hugmynd kviknaði upphaflega um að breyta okkar rótgrónu sparisjóðum í hlutafélög, ekki hefur það verið í anda upphafsmanna sparisjóðanna sem sumir forsvarsmenn þeirra vitnuðu gjarnan í á góðum stundum.
Sérstaklega ef forystumenn sjóðsins þurftu að þagga niður í stofnfjáraðilum sem vildu fara aðra leið en forystan.
Í þetta var vitnað af þeim þegar stofnfjáraðilum barst tilboð í stofnbréfin haustið 2007.
Stjórnin bannaði umsvifalaust alla sölu á þeim.
Það kom algerlega flatt upp á stofnfjáreigendur í Sparisjóði Svarfdæla þegar stjórn þess sjóðs lagði til aukningu á stofnfé um 500 millj, það hvarflaði ekki að neinum að setja eigur sínar undir með lántöku fyrir nýju stofnfé.
Ég fullyrði að mikill meirihluti stofnfjáraðila var algerlega á móti þeim gjörningi fyrir fyrsta fund sem var boðaður af stjórn til að kynna þá leið fyrir stofnfjáraðilum.
En á þessum dæmalausa fundi á Rimum í Svarfaðardal 26. sept 2007 tókst forsvarsmönnum sjóðsins með dyggri aðstoð lögfræðings og enduskoðanda að sunnan að fá samþykkt að breyta sjóðnum í hlutafélag og auka stofnfé um 500 millj.
Förum aðeins yfir hvernig þeim tókst það.
Þeim tókst það með fullyrðingum um að áhættan væri engin.
Með fullyrðingum um að hagnaður sjóðsins myndi greiða upp lánið á þremur árum.
Með fullyrðingum um að bara stofnbréfin væru að veði.
Með fullyrðingu um að með þessu væru stofnfjáraðilar að auka eign sína í sjóðnum en ekki tapa nánast öllu sem þeir áttu í honum ef þeir tækju ekki þátt.
Með því að halda fram þeirri framtíðarsýn að innan örfárra ára bættust við 30 manns að vinna við sparisjóðinn og með þessu væru stofnfjáraðilar að styrkja rekstur í heimabyggð.
Eftir að búið er að hamra á fólki með þessum rökum og gera lítið úr öllum sem mótmæltu er ekki skrýtið að fólk léti undan vilja stjórnar því enginn vill tapa sinni eign og þetta var boð um áhættulausa aukningu á stofnfé og hugsanlegan hagnað seinna meir að þeirra sögn.
Saga Capital banki sendi stofnfjáraðilum bréf 29. nóv 2007 og býðst til að lána fyrir allri aukningunni.
Í bréfinu segir meðal annars:
Til tryggingar láninu yrðu núverandi stofnbréf lántaka ásamt þeirri aukningu sem viðkomandi skrifar sig fyrir í yfirstandandi stofnfjáraukningu.
Yfirgnæfandi meirihluti stofnfjáraðila tók þessu boði bankans.
Hafa ber í huga að Saga Capital var ráðgefandi aðili í öllu þessu máli, var mjög náin samvinna með bankanum og forystumönnum sjóðsins enda bæði stjórnarformaður og sparisjóðsstjóri í stjórn Saga Capital og áttu báðir stóra hluti í bankanum.
Inn í allt þetta fléttast svo ákvörðun forystumanna sjóðsins um að gefa Dalvíkurbyggð eitt stykki menningarhús fyrir mörg hundruð milljónir og við það var staðið þó svo að Sparisjóðurinn væri hruninn til grunna eftir að hafa verið rekinn undanfarin ár meira sem vogunarsjóður en hefðbundinn sparisjóður í anda upphafsmannanna.
Síðan kemur að undirskrift.
Lánsskjölin komu frá Saga Capital í Sparisjóðinn og þangað varð fólk að mæta og skrifa undir, allt varð þetta að gerast í miklu hasti.
Þá reka menn augun í það að búið er að bæta inn smá klausu í handveðsyfirlýsingu um að reynist tryggingin ófullnægjandi má gera aðför að öllum eigum skuldara.
Þetta var ekki aldeilis það sem talað var um, haft var samband við stjórnarformann.
Hann sagði að það þyrfti engar áhyggjur að hafa af þessu, þetta væru bara formsatriði og allt í fína lagi. Þetta er einmitt málið, það var búið að hamra svo á því að bara bréfin væru að veði að það var bara formsatriði að skrifa undir.
Þar með var sú áhætta úr sögunni.
Þessu til frekari staðfestingar sat fólk á móti starfsmönnum Saga Capital í bankanum og var fullvissað um að ekkert væri undir nema stofnbréfin.
Ekki í eitt skipti var tekið fram af Saga Capital eða stjórn sjóðsins að fólk legði allar eigur sínar undir.
Dómstólar gera miklar kröfur til fjármálafyrirtækja þar sem þau starfa í skjóli opinberra starfsleyfa og því eru gerðar ríkar kröfur til þeirra um aðgæslu og vandvirkni í samskiptum við almenna borgara.
Þessar stofnanir hafa yfirburðastöðu gagnvart viðsemjendum sínum og því er á þeim rík skylda um að upplýsa viðsemjendur sína.
Komi fjármálastofnanir fram með óskýrleika og óvandvirkni er áhættan þeirra.
Ég ítreka enn og aftur að stofnfjáraðilar skrifuðu eingöngu undir eftir að hafa verið fullvissaðir af hendi beggja lánastofnana um að bara stofnbréfin væru að veði.
Ekki í eitt einasta skipti fór fram nánari kynning á kjörum þessara lána.
Nú kemur lánveitandi og segir, þið skrifuðuð undir og þar með eruð þið skuldbundin til að borga. Vissulega er það venjan að fólk standi við það sem það skrifar undir en getur verið að það sé leyft í okkar samfélagi að opinberar lánastofnanir ginni fólk með blekkingum til að skrifa undir skuldbindingar sem svo eru innheimtar með hörðu á fölskum forsendum.
Getur það virkilega liðist hjá lánastofnun að loforð þeirra og orð séu að engu hafandi og blekkingar séu bara viðurkennd aðferð til að kría pening út úr saklausu fólki.
Það er alveg ljóst af atburðum liðinna ára að svona var fjármálaveldið í landinu byggt upp. Með blekkingum og svo ótrúlegum fléttum að ekki var möguleiki fyrir venjulegt fólk að átta sig á hvað lá að baki.
Það er ástæðan fyrir því að búið er að ryksuga allt fé landsmanna, það er með hverri svikamylunni ofaná aðra.
Fólk var leitt eins og fé til slátrunar og nú eru slátrarnir margir farnir úr landi og halda áfram í því sem þeir kunna best.
Það er alveg ljóst að víða er enn við völd fólk sem sem hagnaðist óheyrilega rétt fyrir hrun.
Það seldi á réttum tíma segja sumir, en aðrir, og þar á meðal ég, kalla það innherjasvik, og það er gjörsamlega óþolandi hvernig sumt fólk hefur notað upplýsingar sem engir aðrir höfðu til að raka saman illa fengnu fé frá saklausu fólki.
Er nema von að fólk sé reitt, þolinmæði fólks er löngu þrotin gagnvart siðlausum fjárplógsmönnum fjármálastofnana sem rændu heila þjóð innanfrá og skilja eftir sorg og örvæntingu hjá þúsundum Íslendinga.
Þetta á engan veginn við um venjulegt starfsfólk þessara stofnana sem stendur sig vel og er bara að reyna að sinna sinni vinnu og er oft ekki öfundsvert af því og á bara hrós skilið.
Það er alveg morgunljóst að ef fólki hefði bara verið sagt satt um að ábyrgðin væri ekki bara í bréfunum heldur væri allt þeirra undir þá hefðu þessar stofnfjár aukningar alls ekki verið samþykktar.
Getur verið að menn hafi vitað það og þess vegna sett upp allan þennan blekkingarleik, maður spyr sig, það er ljóst núna að engu var trúandi sem frá fjármálastofnunum kom.
Það er athyglisvert að flestir stjórnendur þessara stofnana um allt land sem keyptu stofnfé eða hlutafé stofnuðu svokölluð eignarhaldsfélög um sína hluti.
Einhverra huta vegna gleymdu þeir að ráðleggja hinum venjulega hluthafa hvernig best væri að setja dæmið upp.
Ef fjármálastofnanir ætla að ganga í innheimtu á lánum sem urðu til við svona kringumstæður skulu þær búa sig undir að mæta öflugri mótspyrnu fólks því mælirinn er algerlega fullur.
Lesandi góður. telur þú að þessi viðskipti sem hér er líst flokkist undir sanngjarna og góða viðskiptahætti?
Svari hver fyrir sig.
Stofnfjáraðilar eru upp til hópa duglegt og heiðarlegt fólk sem hefur staðið að baki sjóðnum sínum í gegnum þykkt og þunnt og ekki gert neinar kröfur, bara treyst stjórnendum til að fara vel með sjóðinn sinn.
Það er því þyngra en tárum taki að verða vitni að því er virðist hreinni glæpastarfsemi í mörgum sjóðum þar sem fjölmargir stjórnendur hugsuðu um það eitt að auðgast persónulega í starfi sínu, standandi algerlega á sama um hvernig færi fyrir stofnfjáraðilum að því er virðist.
Það hvernig 500 millj af nýju stofnfé var ráðstafað er svo kapítuli út af fyrir sig.
Stofnfjáraðilar töldu víst að það yrði lagt inn í sparisjóðinn og passað vel því það átti að tryggja glæsta framtíð hans.
Vísbendingar eru um að það hafi allt verið sett í Kistu ehf sem var félag sparisjóða sem hélt utanum eign þeirra í Existu, og þar með rauk það fé allt út um gluggann, var sennilega notað í einhverjum vafasömum fléttum fjárglæframanna.
Sparisjóðurinn var náttúrulega með stjórnarmann í stjórn Kistu.
Allir stofnfjáraðilar geta vitnað um hvernig allt þetta mál var sett upp, því er það vægast sagt með ólíkindum að þurfa að standa í þessu stappi, að þurfa nánast að neyða menn til að standa við orð sín, er of mikið að biðja um það ?
Ég skora á stjórn sjóðsins að koma nú fram með hag stofnfjáreigenda fyrir brjósti, biðjast afsökunar og viðurkenna hvernig hvernig þetta mál var allt upp sett.
Þeir yrðu menn að meiri og ég og sennilega allir stofnfjáraðilar mundu taka þá í fulla sátt fyrir.
Með baráttukveðjum til íslensku þjóðarinnar,
Elvar Reykjalín fiskverkandi