Maria Schneider var stjarna sem skein skært upp úr 1970 en brann hratt.
Hún lék í frægri mynd á móti Marlon Brando, Síðasta tangó í París, í leikstjórn Bertoluccis. Þetta var mynd sem vakti hneykslan, Schneider var kornung, sumum þótti hörmung að sjá þennan gamla karl njóta ásta með henni.
Síðan lék hún í mynd eftir annan frægan ítalskan leikstjóra, sjálfan Antonioni. Myndin hét Farþeginn og mótleikarinn var Jack Nicholson.
Svo var hún í hópi leikenda í mynd sem vakti ógurlega hneykslan, það var Caligula – sem var hálfgerð klámmynd. Hún gafst reyndar upp á myndinni, lét sig hverfa af tökustað og skráði sig inn á geðsjúkrahús í Róm.
Hún var flestum gleymd þegar hún andaðist fyrir nokkrum dögum, 58 ára gömlul, úr krabbameini. En á sínum tíma voru stöðugar fréttir af Mariu Schneider í slúðurdálkum – svona eins og Lindsey Lohan nú. Hún lýsti því yfir að hún væri tvíkynhneigð og átti í vandræðum með eiturlyf.
Og, svona eftir á að hyggja, er ekki slæmt að hafa leikið í myndum hjá meisturum eins og Bertolucci og Antonioni og á móti tveimur helstu leikurum kvikmyndasögunnar, Brando og Nicholson.
Hér er atriði úr Farþeganum, myndin var gerð 1975 – og sýnd í Gamla bíói ef ég man rétt.
[youtube=http://www.youtube.com/watch?v=8rqgjDM7s0E&feature=related]