fbpx
Þriðjudagur 29.júlí 2025
Eyjan

Í vinnustofu Tove Jansson

Egill Helgason
Miðvikudaginn 31. október 2012 08:37

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ég fór í gær í vinnustofu og íbúð Tove Jansson í Helsinki.

Þegar ég var barn las ég bækurnar um múmínálfana, þær voru þá að koma fyrst út á íslensku. Ég óttaðist dálítið að þetta væru stelpubækur, og fékk því foreldra mína til að gefa systur minni þær. Svo las ég þær sjálfur.

Ég hef alltaf verið mjög hrifinn af þessum fígúrum og heimi þeirra – hinum hjartahreina Múmínsnáða, hinum nokkuð ringlaða Múmínpabba, Múmínmömmu með veskið og kaffikönnuna – sem heldur þessu öllu saman – heimshornaflakkaranum Snúði og hinni síkviku Míu.

Og svo er það hinn ískaldi Morri, í einmanaleik sínum, Tikka-tú sem er sögð vera byggð á ástkonu Tove Jansson, Tuulikki Pietilä, sú var sjálf frábær myndlistarkona. Mér var sagt í gær af frænku Tove, sem sýndi okkur vinnustofuna, að annars ætti múmínfólkið ekki raunverulegar fyrirmyndir, nema mamman – hún væri augljóslega móðir Tove Jansson.

Þetta eru frábærar persónur – það var ekki fyrr en síðar að farið var að gera eftir þeim litaðar teiknimyndir, þær eru kannski aðeins of kjút. Og það er einhver dulúð í þessum bókum, sambland af kímni og angurværð, sem er einstök.

Mér fannst semsagt mikið til þess koma að sjá þennan stað. Húsnæðið er ekki stórt, það er á efstu hæð í virðulegu borgaralegu húsi, ein eins og vera ber í vinnustofu listamanns er hátt til veggja og góð birta. Tove var málari og myndskreytir áður en hún fór að skrifa, stundaði svo hvort tveggja jöfnum höndum. Hún skrifaði líka bækur fyrir fullorðið fólk – og sumar þeirra eru perlur.

Íbúðin er full af myndlist, myndastyttum eftir föður Tove sem var myndhöggvari, grafíkmyndum eftir Tuulikki, málverkum og teikningum eftir Tove. Og svo eru bækur út um allt. Tove hefur greinilega lesið mikið og úrvalið er ekki af verri endanum.

Ég sá bækur á frönsku eftir Sartre og Gide – og það var greinilegt að þær höfðu verið lesnar – bækur eftir Dostojevskí, Finnlands-sænska höfunda eins og Tikkanen-hjónin og Bo Carpelan – móðurmál Tove var sænska – og svo bandaríska höfunda eins og Saul Bellow.

Hún skapaði sinn eigin heim í bókum sínum og hann er engu líkur – en hún hefur greinilega fylgst ágætlega með því sem var að gerast í bókmenntaheiminum.

Í vinnustofunni í Ullanlinnankatu götu bjó Tove frá því í stríðslok og þar til hún dó 2001. Hún varð rík og fræg, en breytti ekki háttum sínum. Mér var reyndar sagt að hún hefði eytt miklum tíma í að svara bréfum sem henni bárust – sum voru frá aðdáendum sem voru nokkuð vanstilltir og töldu sig hafa fundið mikinn sannleika í bókum hennar. Á sumrin var hún á eyju í finnska skerjagarðinum. Þaðan kemur mikið af andrúminu í bókum hennar, frá sjávarsíðunni, úr skógum og vötnum Finnlands – þar búa hinar ákaflega hugþekku kynjaverur hennar.

Vinnustofa Tove Jansson á sjötta áratugnum. Þar bjó hún í næstum sextíu ár. Á þarnæsta ári verða liðin 100 ár frá fæðingu hennar, þá verður Finnland heiðursgestur á bókamessunni í Frankfurt.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 5 dögum

Svarthöfði skrifar: Er ekki allt í lagi með ykkur andlega, stjórnendur RÚV?

Svarthöfði skrifar: Er ekki allt í lagi með ykkur andlega, stjórnendur RÚV?
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Orðið á götunni: Staksteinar tilkynna um flokksmálgagn

Orðið á götunni: Staksteinar tilkynna um flokksmálgagn
EyjanFastir pennar
Fyrir 6 dögum

Thomas Möller skrifar: Ferðaþjónustan á betra skilið

Thomas Möller skrifar: Ferðaþjónustan á betra skilið
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Svarthöfði skrifar: Úlfaldi úr mýflugu – margur heldur mig sig – allt í gosmóðu hjá stjórnarandstöðunni?

Svarthöfði skrifar: Úlfaldi úr mýflugu – margur heldur mig sig – allt í gosmóðu hjá stjórnarandstöðunni?
Eyjan
Fyrir 1 viku

Sigmar Guðmundsson: Stjórnarandstaðan á erfitt með að sætta sig við nýjan veruleika í íslenskum stjórnmálum

Sigmar Guðmundsson: Stjórnarandstaðan á erfitt með að sætta sig við nýjan veruleika í íslenskum stjórnmálum
Eyjan
Fyrir 1 viku

Gefur í skyn að formenn stjórnarandstöðunnar hafi lekið trúnaðarsamtölum formanna beint í SFS

Gefur í skyn að formenn stjórnarandstöðunnar hafi lekið trúnaðarsamtölum formanna beint í SFS