Fyrir nokkrum árum gisti ég á hóteli í Istanbul við hliðina á herbergi þar sem landsfaðirinn Kemal Ataturk hélt oft til. Það herbergi er eins konar helgiskrín – ég var semsagt býsna nálægt þeim helgidómi sem Ataturk er í Tyrklandi.
Myndir af honum eru út um allt. Á götum, veitingahúsum, búðum, opinberum byggingum. Menn hafa verið dæmdir í fangelsi fyrir að tala illa um hann.
Samt hefur stjórn Erdogans forsætisráðherra verið að grafa undan arfleifð Ataturks. Hann vildi gera Tyrkland að vestrænu ríki þar sem trú og stjórnmál væru aðskilin.
Á ýmsu hefur gengið í þessu efni. Lengi var það herinn sem stóð vörð um hugmyndir Ataturks. Hann var sterkasta mótvægið við trúarhreyfingar. Þetta hefur breyst nokkuð, Erdogan hefur náð að beygja herforingja til meiri auðsveipni en áður hefur þekkst í nútímasögu Tyrklands.
Unga fólkið sem mótmælir á Taksimtorgi og óttast að trúaröfl séu að ná of miklum ítökum í Tyrklandi veifar fánum með myndum af Ataturk. En á sama tíma er hann opinber stafnfígúra tyrkneska ríkisins. Líklega hafa stúdentarnir þó betra tilkall til að vera arftakar stórmennisins.
Mótmælandi í Istanbul veifar fána með mynd Ataturks.