Ég hef stundum kvartað yfir því hversu Skólavörðuholtið er tætingslegt í útliti. Skólavörðustígurinn og kirkjan laða að sér ferðamenn, en umhverfið í kring er ekki upp á marga fiska.
Nema auðvitað safn Einars Jónssonar sem er mögnuð bygging.
Í gegnum tíðina hafa verið uppi ýmsar hugmyndir um Skólavörðuholtið. Guðjón Samúelsson vildi reisa þar Háborg íslenskrar menningar með alls kyns menningarhúsum, háskóla og stúdentagörðum.
Það voru stórkostleg plön – og ansi flott.
Hugmyndirnar á myndinni hér að neðan eru nýrri eða frá fimmta áratug síðustu aldar.
Mörgum kann að finnast þetta heldur kassalaga, en þarna er þó ákveðin heildarmynd sem heillar. Sumt af þessu minnir á hverfin á Melunum, þar er að finna hvað mest samræmi í byggingarlist á Íslandi.
Takið eftir að þó búið sé að byggja íbúðarblokkir – reyndar frekar lágreistar – umhverfis holtið, er enn haldið í hús við ofanverðan Skólavörðustíg, þar á meðal, að manni sýnist, hús númer 35, en þar bjó Guðjón Samúelsson sjálfur.