Ari Trausti Guðmundsson, jarðfræðingur og forsetaframbjóðandi, segir að Íslendingar eigi ekki að leita að olíu á Drekasvæðinu – horfa verði á orkumál í hnattrænu samhengi.
En mannkynið stefnir að því að hætta ekki fyrr en búið er að dæla upp síðasta dropanum af olíu.
Allt okkar hagkerfi byggir á olíu – það er nóg fyrir fólk að horfa í kringum sig og spá í allt það sem myndi stöðvast ef ekki væri olían.
Stjórnmálamenn hugsa yfirleitt í kjörtímabilum, það er partur af leiknum – þeir sem reyna að hugsa lengra fram í tímann verða óvinsælir. Það er miklu auðveldara að kaupa skammtímavinsældir en að setja sér erfið langtímamarkmið.
Nú hefur olíuframleiðsla að nokkru leyti færst yfir í olíusanda sem er að finna meðal annars í Kanada, Bandaríkjunum, Rússlandi og Venezúela. Þar er hægt að hafa mikið magn af olíu.
Þess vegna hækkar olían enn ekki meir en raunin er. Það er talsvert af olíu eftir – og mikið af koltvíoxíði sem á eftir að senda upp í andrúmsloftið. Meðan ekki er meiri skortur á olíu er ólíklegt að olíuvinnsla á Drekasvæðinu hefjist. Það gerist varla fyrr en eftir einhverja áratugi.
Jú, kannski eru til þeir Íslendingar sem horfa björtum augum á framtíð Íslands sem olíuríkis.
En eins og Ari Trausti segir er nær að hafa áhyggjur af súrnun hafanna, þiðnun sífrerans og bráðnun íss í norðurhöfum.
Og stefna að því að Ísland verði í fararbroddi í nýtingu og notkun hreinna orkugjafa.