Sigmundur Davíð var spurður á Sprengisandi um jafnræði kynjanna í ríkisstjórninni, þar eru þrjár konur á móti sex karlmönnum.
Hann svaraði með annarri spurningu sem ábyggilega fellur ekki vel í kramið hjá femínistum:
„Á að refsa öðrum fyrir að ég hafi fæðst karlkyns?“
Svo hélt hann áfram:
„Ef menn eru þeirra skoðunar finnst mér að það eigi að benda á það hverjum þeirra ráðherra sem þingflokkurinn kaus ætti að skipta út og hverjum ætti að skipta inn í staðinn.“
Þá var hann eðlilega spurður hvers vegna Vigdís Hauksdóttir væri ekki í ríkisstjórn. Hún hefur sjálf lýst yfir vonbrigðum með það.
Sigmundur svaraði með því að segja að Vigdís væri öflugur þingmaður.
En innan Framsóknarflokksins er sagt að það hafi verið fyrsta prófið á stjórnkænsku Sigmundar hvort honum tækist að halda Vigdísi utan ríkisstjórnar, þrátt fyrir að hún sjálf hafi sótt fast að fá ráðherraembætti sem og mágur hennar, Guðni Ágústsson, sem barðist hart fyrir því.
Þetta tókst Sigmundi – enda mun hann alls ekki hafa viljað Vigdísi inn í stjórnina.