Hvað vakir fyrir Ólafi Ragnari? spyr Björn Bjarnason.
Nú ekki annað en það að honum hefur tekist að láta líta þannig út að forsætisráðherrann nýji sé handgenginn sér – í rauninni sinn maður.
Og því verður ekki hróflað við Ólafi Ragnari, staða hans hefur aldrei verið sterkari. Sjálfstæðisflokkurinn mun ekki ná neinum tökum á honum, enda mun Framsókn slá um hann skjaldborg ef með þarf.
Hann getur auðvitað ákveðið að láta það nægja, en hann gæti líka, í ljósi orða sinna um að hann hafi valið Sigmund Davíð vegna málefna, átt það til að minna ríkisstjórnina á kosningaloforðin. Og þá gæti auðvitað kólnað milli hans og Framsóknar.
Því Ólafur Ragnar lítur fyrst og fremst á sig sem mann þjóðarinnar, eins og hefur margoft komið fram.
Ýmsu fleiru hefur hann líka náð fram, eins og til dæmis varðandi utanríkisstefnuna. Hún virðist algjörlega í anda Ólafs Ragnars, með sérstakri áherslu á samskipti við Asíulönd eins og Kína og Indland.