Líkt og ég skrifaði í pistli í gærkvöldi er ekki óeðlilegt að formennirnir Bjarni og Sigmundur taki sér tíma til að mynda ríkisstjórn. Það hefur ekki frést hverjir eru þeim til halds og trausts, en maður hlýtur að gera ráð fyrir að þeir hafi sína ráðgjafa og reiknimeistara.
Ef íslenskir fjölmiðlar væru ákafari væri sjálfsagt hægt að komast að því – en kannski þó ekki nema með því að fara að elta menn og svoleiðis.
Það er þó eitt sem veldur ugg.
Formannaræði hefur löngum verið til baga í íslenskum stjórnmálum, og þetta hefur verið sérstaklega slæmt í ríkisstjórnum þar sem sitja tveir flokkar.
Við höfðum tvíeykið Davíð/Halldór, Geir/Ingibjörgu Sólrúnu og síðast Jóhönnu/Steingrím.
Í öllum þessum tilvikum var eins og formennirnir teldu sig geta ráðið flestum málum í einkasamskiptum sín á milli. En þetta hefur í raun virkað mjög illa. Á tíma Davíðs/Halldórs höfðum við ákvarðanir eins og um Íraksstríðið, Geir/Ingibjörg Sólrún töldu sig ekki þurfa að segja neinum að hagkerfið væri að hrynja og hjá Jóhanna/Steingrímur ætluðu að koma Icesave-samningi í gegn án þess að þingmenn fengju almennilega að vita hvað stæði í honum.
Þetta eru spor sem hræða – Bjarni og Sigmundur þurfa að vara sig á því að loka sig af með stjórn landsins. Það leiðir til firringar – jú og hroka.