Þessa bráðskemmtilegu mynd er að finna utan á bæklingi eftir Pál Theodórsson eðlisfræðing sem nefnist Upphaf landnáms á Íslandi. Bæklinginn má finna á þessari slóð.
Páll heldur því fram að landnám á Íslandi sé miklu eldra en menn hafa hingað talið, það geti munað allt að tvö hundruð árum. Fyrir því færir hann ýmis rök – en hugsanlega má segja að við höfum hangið um of í bókstaf Ara fróða þegar við héldum þjóðhátíðar 1874 og 1974.
Svo er hér viðtal við Pál sem birtist í síðustu Kilju. Þar segir hann meðal annars frá því að með nútíma rannsóknaraðferðum ættum við að geta ákvarðað tíma landnáms í öllum landshlutum.
En myndin sýnir semsagt komu Ingólfs inn um sundin til Reykjavíkur. Eins og sjá má er þar fyrir fólk, búfénaður og hús.