Mikið hefur verið fjallað í dag um hinn snjalla Alex Ferguson sem nú er að láta af störfum sem knattspyrnustjóri Manchester United.
Það er sama hvort maður heldur með Manchester United eða ekki – maður hlýtur að bera virðingu fyrir Ferguson. Hann virkar afar heill og sannur og árangur hans er einstæður.
Ég heyrði sagt um Ferguson í útvarpinu í dag að hann hugsaði bara um fótbolta, en það er ekki alveg rétt.
New Statesman birtir á vef sínum nokkurra ára gamalt viðtal við Ferguson þar sem hann talar meðal annars um pólitík. Sá sem tekur viðtalið er frægur líka – og af skoskum ættum – það er Alistair Campbell, sem var helsti kosningastjóri Verkamannaflokksins á tíma Tonys Blair.
Í viðtalinu kemur fram að þeir hafi verið vinir lengi. Ferguson segir að hann fylgist vel með stjórnmálum og sé mjög pólitískur. Á skalanum einum til tíu sé fótboltinn með tíu hjá honum en pólitíki svona sjö og hálfan.
Þarna koma fram fróðlegar upplýsingar um bakgrunn Fergusons. Hann er alinn upp í verkamannahverfi í Glasgow og varð fljótt stuðningsmaður Verkamannaflokksins. Það segist hann enn vera.
Ferguson vann síðar í skipasmíðastöð á Clydeside og fór þar að taka þátt í starfi verkalýðsfélags. Hann segist þá hafa skilið mikilvægi verkalýðsbaráttunnar, hann kveðst á sínum tíma hafa leitt vinnustöðvun vegna launaskerðingar. Heimili Fergusons er nefnt Fairfields eftir skipasmíðastöðinni þar sem faðir hans vann.
Heimilið var fátækt, leið Fergusons út úr fátæktinni var fótboltinn. Hann varð leikmaður Glasgow Rangers – stuttu eftir að Þórólfur Beck var þar – og síðar knattspyrnustjóri Aberdeen, skoska landsliðsins og Manchester United.
Ferguson segir að síðar hafi það gert hann enn pólitískari þegar móðir hans lá fyrir dauðanum á sjúkrahúsi í Glasgow þar sem allt var í ólestri. Síðan þá hafi hann litið á Verkamannaflokkinn sem stjórmálaafl sem hugsi um velferð almennings meðan Íhaldsflokkurinn hugsi einungis um hag yfirstéttarinnar. Þess ber auðvitað að gæta að Íhaldsflokkurinn er nánast dauður í Skotlandi þar sem Ferguson er upprunninn.