Samfylkingin virðist alveg ráðvillt eftir kosningaósigurinn. Hún nær einungis níu mönnum á þing, margt af því er fólk sem hefur verið lengi á Alþingi og virkar þreytt. Þaðan er ekki að vænta mikillar endurnýjunar. Þegar ESB umsóknin verður frá – líklegast virðist reyndar að hún verði látin fjara hægt út – er spurning hvert Samfylkingin ætlar að beina kröftum sínum.
Vinstri græn eru í betri stöðu. Þeir fóru reyndar nokkurn veginn í strípað grunnfylgi sitt. Þeir hafa hins vegar vinsælan formann. Stór hópur yfirgaf flokkinn á síðasta kjörtímabili, þingmennirnir Lilja Mósesdóttir, Ásmundur Einar Daðason, Atli Gíslason, Guðfríður Lilja Grétarsdóttir og Jón Bjarnason.
Ásmundur gekk í Framsókn, Guðfríður Lilja hætti, hin reyndu fyrir sér í pólitík á öðrum vettvangi og mistókst hrapallega. Áhrif þeirra eru engin – Katrín Jakobsdóttir virðist nú stýra flokki sem er nokkuð heillegur, hefur gengið í gegnum hreinsun.
Meira að segja er sagt að Hjörleifur Guttormsson sé horfinn á braut.
Katrín hefur þá ímynd að hún sé sönn og heiðarleg og hún ætti að geta laðað ungt fólk til flokksins. En þingflokkurinn er ekkert endilega að spegla þetta. Þar eru enn á fleti fyrir Steingrímur J. Sigfússon og Ögmundur Jónasson.
Þeir fengu að vera við völd í rúmlega fjögur ár, en eru nú komnir aftur í gamla stjórnarandstöðupuðið. Maður skilur reyndar varla að Steingrímur nenni því eftir þrjátíu ár á þingi, en í Ögmundi býr eilífur stjórnarandstöðuþingmaður sem brýst sjálfsagt fram aftur.
Það getur þó varla verið nema tímaspursmál hvenær þeir fjandvinirnir setjast í helgan stein.