Sumir myndu telja að Ólafur Ragnar Grímsson sé að setja upp leiksýningu með því að kalla formenn flokka til sín einn af öðrum til að ræða við þá um stjórnarmyndun.
Undir myndavélum fjölmiðla.
Hér á árum áður heyrðu menn reyndar aðeins í forseta eftir kosningar fyrir siðasakir, yfirleitt mættu þeir svo barasta með tilbúnar ríkisstjórnir.
Það voru undantekningar frá þessu ef reyndist erfitt að mynda stjórn, þá kom til kasta forseta. En það er langt síðan slík staða hefur komið upp. Stjórnarmyndanir hafa yfirleitt gengið mjög smurt síðustu áratugi.
Flokksformennirnir vilja greinilega umgangast Ólaf Ragnar af varúð eftir inngrip hans í pólitíkina síðustu árin. En í raun geta þeir komið Bessastaði með tilbúna ríkisstjórn, hafi hún þingmeirihluta er ekkert sem Ólafur Ragnar getur gert til að stöðva það.
Þannig hefur hann í raun ekkert um það að segja hvernig ríkisstjórn verður mynduð, þótt látið sé eins og svo er.
En þarna er dæmi um hvernig Ólafur Ragnar er að reyna að endurmóta forsetaembættið eftir sínu höfði – nei, svona var það ekki á Davíðstímanum.
Og í einu tilviki má reyndar segja að Ólafur hafi haft meiri áhrif á stjórnarmyndun en áður hefur þekkst. Það var þegar minnihlutastjórnin Samfykingar og Vinstri grænna var mynduð í janúar 2009. En sú saga hefur aldrei verið sögð til fulls.