Flestir gera ráð fyrir því að Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn nái að mynda ríkisstjórn.
En það eru ljón í veginum.
Í fyrsta lagi loforð Framsóknarmanna um skuldaafskriftir.
Margir í Sjálfstæðiflokknum börðust hatrammlega gegn þessum hugmyndum í kosningunum. Þar má nefna hópinn sem kennir sig við Vef-Þjóðviljanna, hinn nýja þingmann Vilhjálm Bjarnason og fyrrverandi hæstaréttardómarann Jón Steinar Gunnlaugsson sem varaði sterklega við þessu.
En Framsókn þarf að skila skuldaafskriftum og helst sem fyrst. Miðað við kosningaloforðin er ekki mikið ráðrúm til að semja svo það verði ekki álitshnekkir fyrir Sigmund Davíð Gunnlaugsson. Hann hefur í raun bundið sitt pólitíska trúss við þetta eina mál.
En Bjarni Benediktsson getur varla látið undan, hugmyndir sjálfstæðismanna gengu út á að laga skuldastöðuna í gegnum skattkerfið. Kannski tekst flokkunum að hræra saman einhverja blandaða leið – en það er víst að Bjarni vill ekki verða fangi loforða Framsóknarflokksins sem máski er ekki hægt að standa við.
Svo er það spurning hvor þeirra ætti að verða forsætisráðherra. Líklegra er að það verði Bjarni í skjóli þess að flokkur hans er stærri. En þá yrði að umbuna Framsókn með stórum og mörgumráðuneytum. Eðlilegast er að Sigmundur Davíð væri sá sem fer með skuldamálin – það hefur ekki reynst sérlega vel fyrir flokksformenn í gegnum tíðina að vera utanríkisráðherrar, en það ráðuneyti hefur verið talið ganga forsætisráðuneytinu næst að virðingu.
Í raun væri sterkara að Sigmundur yrði fjármálaráðherra eða atvinnuvegaráðherra.
En svo gæti þetta snúist við og Sigmundur yrði forsætisráðherra. Möguleiki er auðvitað líka að skipta á miðju kjörtímabili.
Það er strax farið að tala um að fjölga ráðuneytum. Spurning er hvaða þörf er á því, en þannig er auðvitað hægt að koma fleiri flokksmönnum í embætti. Reyndar virka nýju lögin um skipan ráðuneyta hamlandi í þessu efni, það er bara eitt velferðarráðuneyti og eitt innanríkisráðuneyti. Möglegulegt er máski að skipa tvo ráðherra í hvert þeirra, þannig annar fari með heilbrigðismál og hinn félagsmál eins og áður fyrr. Innanríkisráðuneytinu má skipta milli ráðherra samgöngumála og ráðherra dómsmála.
Þetta mun þó varla virka sérlega vel á kjósendur.
Bæði Sjálfstæðisflokkurinn og Framsókn eiga svo möguleika á að vinna yfir miðjuna til vinstri – ef flokkarnir ná ekki saman. Ólafur Ragnar Grímsson talaði á Bessastöðum í gær um nauðsyn víðtækrar sáttar í samfélaginu. Hún virðist ekki sérstaklega í sjónmáli.