Ég held að ekki sé hægt að neita því að kosningaumfjöllun Ríkisútvarpsins hefur verið til mikils sóma.
Þess hefur verið gætt að öll framboð komist að – og njóti jafnræðis.
Það er hin lýðræðislega aðferð.
Umfjölluninni fyrir kosningar lýkur á RÚV annað kvöld. Þá verður þáttur með formönnum flokkanna sem bjóða fram á landsvísu. Í kvöld er raunar þáttur með formönnum flokka sem bjóða fram en ekki í öllum kjördæmunum.
Hliðstæður þáttur er á Stöð 2 í kvöld. En þar fá einungis að vera formenn „sex stærstu flokkanna samkvæmt skoðanakönnunum“, eins og það er auglýst. Semsagt flokkarnir fjórir og Björt framtíð og Píratar.
Stöð 2 er stærsta einkasjónvarpsstöð landsins. Hún hefur nokkuð glæsilega hefð hvað varðar fréttaflutning. En þessi aðferð við að velja inn í mikilvægar formannaumræður er umdeilanleg.