Samfylkingin var stofnuð til að vera stóri flokkurinn á vinstri vængnum.
Það tókst ekki að sameina allt vinstrið, hluti af Alþýðubandalaginu tók sig til, fann nýjan málstað sem var kominn í tísku – blandaði saman umhverfisvernd og sósíalisma.
En Samfylkingunni tókst að verða stór. Með tilkomu hennar varð krataflokkurinn miklu stærri en sósíalistaflokkurinn – á tíma Alþýðuflokksins og Alþýðubandalagsins var það á hinn veginn, sósíalistarnir voru alltaf stærri.
Samfylkingin hefur tekið þátt í fernum kosningum og fylgið hefur í raun verið harla gott. Frá 27 prósentum upp í 31 prósent – í síðustu kosningum var fylgið 29,8 prósent og Samfylkingin stærsti flokkurinn.
Þess vegna er það mikið áfall fyrir Samfylkinguna ef flokkurinn fer niður í kringum 15 prósent. Það gæti þýtt breytingar í fylgisgrunninum, kjósendur sem hafa kosið flokkinn aftur og aftur leita annað.
Um Vinstri græna gegnir dálítið öðru máli. Þeir hafa líka tekið þátt í fernum kosningum, í tveimur fyrstu var fylgið undir tíu prósentum, það fór upp í 14 prósent 2007, en í síðustu kosningum alla leið upp í 22 prósent.
Það var varla vegna þess að svo margir Íslendingar væru farnir að aðhyllast stefnu flokksins, heldur var þetta ónánægjufylgi sem fór til VG þegar blasti við að aðrir flokkar bæru ábyrgð á hruninu.. Kannski er ekki von á öðru en að fylgið leiti annað fjórum árum síðar?
Í því sambandi er merkilegt að sjá fylgi fara frá VG til Pírata sem eru í raun á allt öðrum stað í pólitík, að minnsta kosti hvað varðar það sem á fínu máli kallast umhyggusjórnmál en aðrir myndu nefna forsjárhyggju.
Vinstri grænir virðast aðeins vera að sækja í sig veðrið undir formennsku Katrínar Jakobsdóttur. Hún er sá stjórnmálamaður íslenskur sem nýtur hvað mests álits og hún er að skila sínu fyrir flokkinn. Hann gæti sigið yfir 10 prósentin, og þá má kannski segja að VG sé komið í grunnfylgi sitt.
Almennt virðist vera tilhneiging til að líta á Bjarta framtíð sem klofning frá Samfylkingunni. Þar inni eru þó fleiri hópar, til dæmis fólk úr Besta flokknum og brotthlaupnir framsóknarmenn. Það er spurning hvort Björt framtíð reynist vera frjálslyndur miðjuflokkur, sem má segja að hafi vantað á Íslandi. Það er hann þó varla nema hann taki fylgi frá Sjálfstæðisflokknum líka.
Tvö framboð eru svo hreinn klofningur frá VG. Alþýuðufylkingin og Regnboginn.
Látum Alþýðufylkinguna liggja milli hluta, hópar lengst til vinstri voru alltaf að kjúfa sig frá gamla Alþýðubandalaginu, það er ekkert nýtt.
Regnboginn er hins vegar öðruvísi. Hann er framboð „framsóknarkomma“ eins og Bjarni Harðarson sagði sjálfur. Þetta er orð sem hefur tæplega mátt segja upphátt, en þessi hugmyndastraumur hefur alltaf verið til á vinstri vængnum. Hann hefur ekki endilega átt mikið sameiginlegt með sósíalistum á mölinni – í raun væru Katrín Jakobsdóttir, Svandís Svavarsdóttir, Árni Þór Sigurðsson og Björn Valur Gíslason ekkert óeðlilega í sveit sett í vinstri helmingi Samfylkingarinnar. Þar er líka að finna svipaðar femínistaáherslur og í VG.
Regnbogaliðið er hins vegar nær Framsókn – en það virðist þó ekki ætla að hafa erindi sem erfiði. Það er svo dálítið kaldhæðnislegt að Regnboginn yfirgefur VG á tíma Steingríms J. Sigfússonar, sem margir myndu segja að hafi löngum verið nokkurs konar „framsóknarkommi“ á stjórnmálaferli sínum.