Merkileg rimma er komin upp milli Stefáns Ólafssonar prófessors og Árna Páls Árnasonar formanns Samfylkingarinnar.
Stefán hefur öðrum fremur mælt ríkisstjórninni bót hvað varðar árangur hennar.
En í greinum nýskeð hefur hann ljáð máls á því að hugmyndir Framsóknarflokksins um að laga stöðu skuldara séu ekki alveg ómögulegar.
Hann hefur meira að segja skrifað að það sé nokkuð í anda norrænnar velferðar að reyna að gera eitthvað fyrir skuldsett heimili.
Stefán telur að þarna geti Samfylkingin átt samleið með Framsókn.
Þetta hefur vakið heiftarreiði í herbúðum Árna Páls, þar sem greinilega ríkir mikil taugaveiklun.
Í dag skrifar Þórunn Sveinbjarnardóttir, helsti aðstoðarmaður Árna, grein um Stefán á Eyjuna. Greinin er mjög stóryrt, þar segir að Stefán hafi talað af miklum krafti fyrir Framsókn í kosningabaráttunni – og að hann hafi límt trúverðugleika sinn við hann.
Stefán er vanur að verjast skeytum frá hópi sjálfstæðismanna sem þolir hann ekki. En yfirleitt fær hann ekki skeyti úr þessari átt – hvað þá að honum sé borið á brýn að „hunsa fræðilegar kröfur“.