Leki úr ráðuneyti sem varðar einkamál fólks – og þar sem hafði verið átt við gögn ráðuneytisins – bætt við niðrandi upplýsingum neðanmáls, er ekki sambærilegur við leka úr opinberri stofnun sem tengist meintum langavarandi brotum stærstu fyrirtækja landsins.
Það er meira að segja komið fram í umræðunni að Eimskip hefði átt að tilkynna um rannsókn Samkeppniseftirlitsins til Kauphallar Íslands. Hluthafar í Eimskip hafa hugsanlega átt kröfu á að vita þetta allir með tölu.
Nú hefur málið verið sent til sérstaks saksóknara – ekki veit maður hvaða bolmagn sú stofnun hefur til að rannsaka það eftir mikinn niðurskurð. Málið gæti semsagt dregist á langinn. Það er slæmt.
Varla ætla menn að reyna að halda því fram að það varði ekki allan almenning ef stærstu skipafélög landsins, einráð á markaði, gerast sek um alvarleg lögbrot?
Ólíklegt verður að teljast að slíku yrði haldið leyndu um langt skeið í nokkru erlendu ríki.
Gamalreyndur blaðamaður, Ómar Valdimarsson, orðar þetta svo á Facebook:
Leki er ekki endilega hið sama og leki. Eitt er að leka upplognum pappírum til að koma höggi á fólk sem á undir högg að sækja og annað að leka staðfestum upplýsingum sem almenningur á heimtingu á að hafa aðgang að. Hugarfar þess sem lekur skiptir einnig máli: er hann að koma öðrum illa eða vill hann koma fleirum vel?