Þessi frábæra sumarmynd birtist á Facebook-síðu sem nefnist Gamlar ljósmyndir. Fylgir sögunni að myndin sé frá 1950.
Þarna er horft af gamla Landsímahúsinu í vestur yfir Fógetagarðinn, öðru nafni Víkurgarð, með myndinni fylgja þær upplýsingar að garðurinn hafi verið hannaður af Sigmari Guttormssyni Þormar.
Garðurinn hefur verið fallegur á þessum tíma – milklu fallegri en steinsteypta planið sem þar er núna og þar sem þrífst afar lítið mannlíf.
Í Aðalstræti, lengst til vinstri á myndinni, sjáum við stórhýsið Uppsali, þarna liggur Grjótagatan upp í Grjótaþorpið, en til vinstri er hús sem snýr út í garðinn, það er meðal annars frægt vegna þess að þar hafði skáldið Vilhjálmur frá Skáholti verslun og seldi blóm og listmuni. Húsið brann 1967 – og lítil prýði er að ferlíkinu sem þarna kom í staðinn.
Öll húsin á myndinni heyra sögunni til. Þarna var seinna byggt hús sem svipar aðeins til Uppsala og við hliðina á því hús sem ber svipmót Fjalakattarins. Hann var hins vegar lengra í norður.
Þarna sjáum við líka silfurreyninn fræga sem garðræktarfrumkvöðullinn Schierbeck gróðursetti 1884. Það mun vera elsta tré Reykjavíkur.