Á morgun klukkan tvö verður fluttur á Rás 1 fyrsti þátturinn sem ég stjórna af Laugardagsviðtalinu. Við skiptumst á með þennan þátt ég og Sigurlaug M. Jónasdóttir.
Þátturinn er klukkustundar langur – þetta eru semsagt nokkuð ítarleg viðtöl við fólk sem við teljum að hafi frá einhverju að segja.
Fyrsti gestur minn er Haraldur Sigurðsson eldfjallafræðingur. Hann hefur talsvert verið í fjölmiðlum vegna eldsumbrotanna norðan Vatnajökuls, en hann á sér ævintýralegt lífshlaup og hefur rannsakað eldfjöll víða um heim. Hann rekur nú eldfjallasafn í Stykkishólmi þar sem hann er uppalinn.
Í viðtalinu ræðum við náttúrlega um eldgos, en líka um loftslagbreytingar, orkumál, Grænland sem Haraldur þekkir vel og svo komum við líka inn á listir og menningu og einkalíf Haraldar.
Þátturinn er sem áður segir á dagskrá Rásar 1 á laugardag klukkan tvö.