Sjöundi þáttur Vesturfara verður sýndur í sjónvarpinu á sunnudagskvöld.
Í þættinum höldum við áfram að skoða borgina Winnipeg þar sem var blómleg íslensk menning og mannlíf á tíma vesturferðanna – eins og við kynnumst í þættinum eru menningartengslin enn lifandi.
Við förum um götur í kringum Sargent & Victor í fylgd Janis Ólafar Magnusson, en hún er alin þar upp. Kvikmyndaleikstjórinn vestur-íslenski Guy Maddin kennir okkur að drekka molakaffi og segir frá lífinu á íslenskri hárgreiðslustofu í Winnipeg. Við fjöllum um Íslendinga í fyrri heimsstyrjöldinni, bindindi og drykkjuskap, og viðkvæmni Vestur-Íslendinga gagnvart því hvernig um þá var fjallað í gamla landinu.
Guy Maddin drekkur molakaffi. Hann vakti fyrst athygli fyrir kvikmyndina Tales from the Gimli Hospital, en þar leikur hann sér með íslenskan uppruna sinn og sögur sem hann heyrði í æsku.