Eitt vandamál Ríkisútvarpsins er að það er að sligast undan eftirlaunaskuldbindingum sem fylgdu með þegar því var breytt í ohf. – hlutafélag í eigu ríkisins.
Peningarnir sem koma inn með útvarpsgjaldinu fara semsagt í ýmsa aðra hluti en að búa til dagskrá og miðla henni.
Og útvarpsgjaldið skilar sér heldur ekki allt.
Fyrrverandi starfsmaður Ríkisútvarpsins, Þórhallur Birgir Jósefsson, orðar það svo á Facebook:
Alþingi svíkur mig um útvarpsgjaldið!
Leggur á mig (og alla fjölskylduna) heilt útvarpsgjald, með vísan í lög sem segja að þetta gjald eigi að fjármagna rekstur Ríkisútvarpsins.
Síðan tekur Alþingi sig til að tekur stærri og stærri hluta gjaldsins í eitthvað allt annað og svo koma formaður og varaformaður fjárlaganefndar og eru með derring yfir að RÚV þurfi að skera meira niður!
Þessi framkoma er akki sæmandi fólki sem hefur fengið umboð frá kjósendum til að annast ríkisreksturinn, ekki til að eyðileggja eina elstu og helstu menningarstofnun landsins!
Nú kemur fram sú hugmynd að selja Rás 2 til að afla fjár.
Maður spyr hvað eigi að selja? Óla Palla? Geisladiska? Nokkrar tölvur sem innihalda tónlist? Einhvern tækjabúnað? Svosem eitt stúdíó? Nafnið? Það er satt að segja ekki eftir miklu að slægjast og arðurinn af útvarpsrekstri er ekki mikill. En Rás 2 hefur haft það menningarhlutverk að sinna nýrri tónlist, ekki síst þeirri íslensku – ég held varla að einkaaðilar séu að keppast um að komast í það.
En er ekki tími til að hinum árvissa hráskinnaleik um Ríkisútvarpið linni?