Bandarískur auðmaður, Nick Hanauer, skrifar grein sem fer eins og eldur í sinu um veraldarvefinn.
Hanauer segist vera einn af 0,1 prósentinu sem á mestan auð í Bandaríkjunum – og hann segist vera eindreginn stuðningsmaður kapítalisma.
En hann segir líka að ójöfnuðurinn í Bandaríkjunum sé orðinn svo mikill að stefni í óefni.
Hanauer segir að sjálfur sé hann ekkert sérstaklega klár, hann hafi hins vegar verið heppinn í fjárfestingum. Í raun sé hann meðalmaður og hann hafi ekki lagt á sig mikla vinnu.
En hann sé nógu klár til að greina áhættu – og hvernig hlutir þróast. Hann segist sjá heykvíslar.
Ekkert samfélag geti þolað slíkan ójöfnuð. Nú sé ástandið í Bandaríkjunum slíkt að efsta 1 prósentið deili 20 prósentum af þjóðartekjunum, neðstu 50 prósentin hafi aðeins 12 prósent. Ójöfnuðuðurinn sé í sögulegu hámarki og fari vaxandi. Þetta geti ekki endað með öðru en uppreisn. Þannig sé kapítalisminn – sem Hanauer aðhyllist – að tortíma sér.
Hanauer segir ennfremur að hin fráleita brauðmolahagfræði – trickle down – sé að eyðileggja viðskiptin fyrir sér og öðrum. Kaupmáttur fari rýrnandi. Menn gerðu betur með því að leita í smiðju Henrys Ford sem hækkaði kaup verkamannana í verksmiðjunum í Michigan – til að þeir gætu sjálfir haft efni á að kaupa T-módelið af Ford.
Hanauer segir að nauðsynlegt sé að taka upp lágmarkslaun í Bandaríkjunum – 15 dollara á tímann. Hann hefur áður skrifað um þetta, og segir að þessi hugmynd hafi verið sögð „sturluð“ í viðskiptatímaritinu Forbes. En nú hafa 15 dollara lágmarkslaun verið gerð að reglu í Seattle.
Eins og Hanauer segir – ef launafólk fær almennilega greitt, þurfa skattgreiðendur ekki að hlaupa undir bagga og borga mismuninn.
Laun forstjóra hafa hækkað um 1000 prósent gagnvart launum verkafólks frá 1950, segir Hanauer. Stjórnendum hefur fjölgað mikið – störf þeirra eru ekki útvistuð til Kína. En almennt kaup má helst ekki hækka. Á því ríkir bannhelgi, það má helst ekki nefna. En lágmarkslaunin eru hæst í Seattle og San Francisco, þeim stórborgum í Bandaríkjunum þar sem er mestur vöxtur. Launin hafa ekki eyðilagt kapítalismann þar.
Þvert á móti, segir Hanauer. Ef launin eru lág hefur fólk ekki efni á að kaupa vörur hjá fyrirtækjum sem framleiða þær. Það borðar ekki á veitingastöðum. Kaupir ekki föt. Hann nefnir stórfyrirtæki eins og WalMart og McDonalds sem borga launafólki eins lítið og þau komast upp með og eru á móti því að lágmarkslaun hækki.
WalMart er stærsti atvinnurekandi í Bandaríkjunum með 1,4 milljónir manna á launaskrá. En mikill fjöldi starfsmanna WalMart er þiggjandi félagslegrar aðstoðar. Launin hrökkva ekki til. WalMart skilaði 25 milljörðum dollara í hagnað í fyrra. En ef WalMart borgaði hverjum starfsmanni 10 þúsund dollurum meira á hverju ári gæti það hugsanlega þýtt að þetta starfsfók hefði efni á að versla sjálft í WalMart. Hagnaðurinn væri samt meira en 15 milljarðar dollara á ári.
Hanauer segir að lokum að Bandríkjamenn séu upp til hópa farnir að álíta að kapítalisminn sjálfur sé meinið. En svo sé ekki. Hann sé besta aðferð sem mannkynið þekki til að skapa velmegun. En sé hann óbeislaður geti það leitt til samþjöppunar auðs og þá sé hrun á næsta leyti. Því þurfi að fjárfesta í millistéttinni, ekki í skattaafslætti fyrir hina ofurríku. Eitt sinn hafi verið talað um guðlegan rétt yfirstéttarinnar til að lifa í vellystingum – nú nefnist þetta trickle down economics, brauðmolahagfræði.
Þetta sé auðvitað algjört bull. Nú sé tími til að breyta þessu, annars geti hinir ríku hallað sér aftur, notið þess að sigla á snekkjum sínum, og beðið eftir heykvíslunum.