Guðmundur Andri Thorsson skrifar ágæta grein í Fréttablaðið í morgun þar sem hann veltir fyrir sér vali Kiljunnar á íslenskum öndvegisbókum.
Það er alveg rétt hjá Guðmundi Andra að þetta er ekki kanón eða kanóna. Það orð hefur á sér yfirvaldskenndan blæ, það vísar í verk sem einhvers konar stofnun (bókmenntastofnunin?) segir fólki að það eigi að lesa. Víða erlendis hafa orðið miklar deilur þegar velja á slíka kanónu.
Það sem um ræðir í Kiljunni er auðvitað viðhorfskönnun sem nær til þeirra sem horfa bókmenntaþátt í sjónvarpi. Einnig voru send tilmæli til bókavarða, starfsfólks í bókaverslunum og hjá bókaforlögum og rithöfunda um að kjósa. Úrtakið er semsagt fólk sem les og hefur áhuga á bókum. Ég gerði ekki nákvæma úttekt á því, en ég hygg að konur hafi verið meirihuti svarenda.
Þetta er samt ekki vinsældakönnun, heldur var fólk beðið um að nefna verk sem því þykir merkileg, sem skara fram úr. Fyrir nokkrum árum reyndum við að láta þartilgert fyrirtæki gera skoðanakönnun um svipað efni – reyndar voru spurningarnar fleiri. Niðurstöðurnar voru út og suður og við höfum ekki birt þær. Fólkið sem haft var samband við í könnuninni reyndist upp til hópa óviðbúið að svara.
Við höfum tekið saman lista sem inniheldur 200 bækur – og svo 100 titla í viðbót. Þegar svo neðarlega er komið eru ekki ýkja mörg atkvæði að baki hverri bók. Nýlegar bækur eru auðvitað of margar á listanum til þess að þetta geti talist vera kanóna. En þó eru þarna fornsögurnar sem enn eru lesnar, skáldsögur Kiljans eins og þær leggja sig, Eddukvæðin, Hávamál og Völuspá, Lilja, Sólarljóð og Passíusálmar.
Það hringdi í mig blaðakona af DV og spurði hvers vegna væru svona fáar konur. Ég sagði að þvert á móti sýndi listinn að konur stæðu mjög sterkt í bókmenntunum. Það væru afar fá dæmi um bókmenntaverk eftir konur fyrr en á tuttugustu öld. En listinn sýnir að höfundar eins og Svava Jakobsdóttir, Jakobína Sigurðardóttir og Fríða Á. Sigurðaróttir eru mjög hátt skrifaðar – kvenhöfundar sem eru fæddar á árunum fyrir stríð. Ég hélt að þær væru frekar gleymdar, nei, það eru frekar örlög karla eins og Guðmundar G. Hagalín og Kristmanns Guðmundssonar.
Guðmundur Andri saknar ýmissa hluta eins og stakra ljóða. Við sögðum reyndar að þátttakendur gætu nefnt þau, en það gerðu fáir. Fólki fannst greinilega vissara að nefna ljóðabækur eða ljóðasöfn. Það væri reyndar gaman að kanna einhvern tíma hvaða ljóð lesandi Íslendingar halda mest upp á – aftur yrði það auðvitað ekki nema samkvæmisleikur. Einhvern veginn hefur maður á tilfinningunni að sá smekkur sé mjög mótaður af bláu Skólaljóðunum – sem einmitt skoruðu nokkuð hátt hjá okkur í Kiljunni.
Og svo nefnir hann bókmenntagrein sem var afar vinsæl langt frameftir síðustu öld en hefur ekki verið fyrirferðarmikil síðustu áratugina. Það eru sagnaþættirnir sem menn eins og Sverrir Kristjánsson, Tómas Guðmundsson og Jón Helgason ritstjóri kunnu öðrum betur að semja. Þessi grein var gjarnan flokkuð sem „þjóðlegur fróðleikur“. Maður spyr hvort ekki megi taka saman sýnisbók með þessum skrifum – margt í þeim var alveg magnað.
Fyrir sjálfan mig var mjög gaman að vinna þetta. Eins og komið hefur fram voru svörin 620. Miklu fleiri einstaklingar eru þó þarna að baki því vinnustaðir og hópar tóku sig saman um að senda inn lista og einnig var talsvert um að hjón sendu svör saman. Birtir hafa verið titlarnir 300 sem voru efstir. En þar fyrir neðan var margt skemmtilegt, enda var fjöldi tilnefninganna mikill. Fólki var gert að nefna 20-30 titla, ef við margföldum 30 með 620 fáum við 18600 tilefningar.
Ég get af handahófi nefnt eftirfarandi titla sem voru nefndir oftar en einu sinni:
Ólafs saga Þórhallasonar – Eiríkur Laxdal Eiríksson
Bragfræði og háttatal – Sveinbjörn Beinteinsson
Svipþing – Sveinn Skorri Höskuldsson
Sveppabókin – Helgi Hallgrímsson
Vér Íslands börn – Jón Helgason
Hrakningar og heiðavegir – Pálmi Hannesson/Jón Eyþórsson
Grasnytjar – Björn í Sauðlauksdal
Söguþættir landpóstanna – Helgi Valtýsson tók saman
Mannfækkun af hallærum á Íslandi – Hannes Finnsson
Árbækur Espólíns – Jón Espólín
Íslenska þjóðríkið – Guðmundur Hálfdánarson
Hornstrendingabók – Þórleifur Bjarnason
Fagrar heyrði ég raddirnar – Einar Ól. Sveinsson tók saman
Litla gula hænan – Steingrímur Arason
Stúlka – Júlíana Jónsdóttir
Íslensk þjóðlög – Bjarni Þorsteinsson
Minningar – Guðrún Borgfjörð
Um haf innan – Helgi Guðmundsson
Reisubók Ólafs Egilssonar
Sálmabókin
Markaskráin
Fyrsta málfræðiritgerðin
Íslensk sjónabók
Grágás
Íslenskt fornbréfasafn
Íslenska hómilíubókin
Flóra Íslands
Árbækur Ferðafélags Íslands
Eiríkur frá Brúnum, ævisaga