Jón Magnússon fyrrverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins segir í því tilfinningalega umróti sem tilskipun Donald Trump hefur valdið þurfi fólk og utanríkisráðherrar, þar á meðal Guðlaugur Þór Þórðarson, að átta sig á því um hvað málið snýst og hvað sé fordæmanlegt og hvað ekki. Líkt og margsinnis hefur komið fram hefur Donald Trump Bandaríkjaforseti sett tímabundið bann á komur fólks sem er fæddist í Íran, Sýrlandi, Írak, Jemen, Lýbíu, Sómalíu og Súdan til Bandaríkjanna. Tilskipun Trump hefur verið harðlega gagnrýnd og hefur Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra mótmælt tilskipuninni formlega fyrir hönd íslenskra stjórnvalda. Á vefsíðu sinni kemur Jón Trump til varnar í fimm liðum og sakar hann stjórnmálamenn sem hafa gagnrýnt tilskipunina, þar á meðal utanríkisráðherra, um „pópúlíska herferð í anda rétttrúnaðarins“:
Í fyrsta lagi þá er það óumdeilanlegur réttur frjáls og fullvalda ríkis að stjórna landamærum sínum og ákveða hverjir fái að koma inn í landið og hverjir ekki. Á þessum vettvangi hefur iðulega verið bent á það að lönd sem gefa þann rétt frá sér taka mjög mikla áhættu, sérstaklega varðandi öryggi eigin borgara eins og dæmin sanna í Þýskalandi og Frakklandi á síðasta ári,
segir Jón. Mörg lönd í Evrópu hafa lokað landamærum sínum fyrir ákveðnu fólki, til dæmis hefur Bretland meinað hollenska stjórnmálamanninum Geert Wilders og rithöfundinum umdeilda Robert Spencer að koma til landsins:
Stjórnmálamenn Vesturlanda þ.á.m utanríkisráðherra Íslands mætti hafa þetta í huga í pópúlískri herferð í anda rétttrúnaðarins.
Í öðru lagi sé tilskipun Trump í samræmi við það sem hann lofaði kjósendum sínum fyrir kosningar, en líkt og Eyjan greindi frá fyrr í dag styðja fleiri Bandaríkjamenn stefnu forsetans en eru á móti:
Stjórnmála- og fréttaelítan er svo gegnsýrð af því viðhorfi að kosningaloforð þýði ekki neitt að þeim virðist koma á óvart að stjórnmálamaður sem nær kjöri skuli framkvæma það sem hann sagði í kosningabaráttunni að hann ætlaði að gera.
Í þriðja lagi sé Evrópusambandið að gliðna í sundur vegna opinna landamæra og vegna þeirra hafi hryðjuverkamenn komist mun auðveldar á milli landa:
„Í fjórða lagi þá er það rangt að bannið beinist að Múslimum. Hefði svo verið þá tæki það líka til fjölmennustu ríkja múslima eins og Indónesíu, Egyptalands, Pakistan, Saudi Arabíu, Alsír og Marokkó svo dæmi séu nefnd. Staðreyndin sem þeim sést yfir sem hreykja sér hæst á fordæmingarhaug stjórnmála- og fjölmiðlaelítunnar er að tiskipun Trump beinist að þeim löndum þar sem Bandaríkjamenn hafa verið í sérstakri hættu og sú röksemd er notuð í tilskipuninni, en ekki gegn Íslam,“
segir Jón. Að lokum megi ekki gleyma því að Bandaríkin eru réttarríki og ef Bandaríkjaforseti gefur út tilskipun þurfi hún að standast lög og stjórnarskrá. Segir Jón að það megi heldur ekki gleyma að kostnaður við hvern fóttamann sem tekið sé á móti sé svo mikill að aðstoða mætti tífalt fleiri til að lifa við mannsæmandi lífskjör á öruggum stöðum nálægt sínum heimaslóðum:
Málefni flóttafólks þarf virkilega að ræða með raunsæum hætti, án upphrópanna og illyrða. Finna þarf ásættanlega lausn á fjölþjóðlegum vettvangi. Það verður að ræða af skynsemi og yfirvegun og vinna sig fram til lausnar sem tryggir sem mest öryggi borgara heimaríkis og mannsæmandi líf fyrir sem flesta.