Barnaheill – Save the Children á Íslandi, UNICEF á Íslandi og umboðsmaður barna hafa sent frá sér sameiginlega áskorun vegna frumvarps um breytt fyrirkomulag á áfengissölu, Krabbameinsfélagið gerði slíkt hið sama í morgun. Telja Barnaheill, UNICEF á Íslandi og umboðsmaður barna gagnrýna frumvarpið harðlega og telja það ganga þvert á hagsmuni barna og brjóta gegn réttindum þeirra.
Við hvetjum þingmenn til þess að kynna sér vel rannsóknir og afstöðu fagfólks á sviði heilbrigðis- og félagsmála til frumvarpsins. Þar kemur skýrt fram að afnám einkasölu ÁTVR og aukinn sýnileiki áfengis í auglýsingum, mun leiða til aukinnar áfengisneyslu, bæði meðal unglinga og fullorðinna. Er því ljóst að þær breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu munu hafa verulega neikvæðar afleiðingar í för með sér fyrir heilsu, þroska og öryggi barna,
segir í áskoruninni. Samkvæmt 3. gr Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna beri þingmönnum að setja hagsmuni barna í forgang þegar teknar séu ákvarðanir sem varði börn og því eigi sjónarmið sem snúa að verndun barna að vega þyngra en önnur, þar að auki brjóti frumvarpið gegn grunnstoðum Barnasáttmálans.
Krabbameinsfélagið: Óheillaspor gagnvart lýðheilsu
Stjórn Krabbameinsfélagsins segir að frumvarpið gangi þvert á ýmsar áætlanir til bættrar heilsu sem stjórnvöld hafa samþykkt á undanförnum árum og þar með sé mikilvægum stoðum kippt undan árangursríkri forvarnastefnu í áfengismálum sem almenn samstaða hefur verið um hjá þjóðinni:
Með frumvarpinu er verið að leggja til að aðgengi að áfengi verði stóraukið með tilheyrandi fjölskylduvanda, samfélagslegum kostnaði, heilsufarsvanda og álagi á heilbrigðiskerfið. Aukin markaðssetning leiðir til þess sama. Fjöldi fagaðila á sviði heilbrigðis- og félagsvísinda auk félagasamtaka hefur fært góð og gagnreynd rök fyrir því að slíkt væri óheillaspor gagnvart lýðheilsu. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin, WHO, hefur um áratugaskeið lagt til við aðildarþjóðir sínar að unnið verði markvisst að því að draga úr heildarneyslu áfengis. Það er fjarri lagi að hægt sé að taka ákvarðanir sem varða áfengi á þeirri forsendu að þar sé um að ræða venjulega neysluvöru,
segir í ályktun stjórnar Krabbameinsfélagsins. Vitað sé að áfengi auki líkur á krabbameini í munnholi, koki, barka, vélinda, lifur, ristli, endaþarmi og brjóstum. Einnig eru vísbendingar um að það auki líkur á krabbameini í blöðruhálskirtli og fleiri tegundum krabbameins. Áætlað er að áfengi sé orsök um 4% dauðsfalla af völdum krabbameins eða um 25 manns á ári hér á landi. Því sé skylda Krabbameinsfélagsins að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að draga úr neyslunni en ekki auka hana, því hvetur stjórnin til að þingmenn felli frumvarpið.