Mikill áhugi er nú á þvi í Félagi eldri borgara í Reykjavík að fara í mál við ríkið til þess að hnekkja skerðingum á lífeyri eldri borgara hjá almannatryggingum, en þeir sem fá lífeyri úr lífeyrissjóðum verða að sæta miklum skerðingum lífeyris hjá Tryggingastofnun enda þótt lífeyrir úr lífeyrissjóðum hafi átt að vera viðbót við almannatryggingar.
Þetta segir Björgvin Guðmundsson fv. borgarfulltrúi sem mjög hefur látið til sín taka í réttindabaráttu eldri borgara.
Hann fjallar um málið á fésbókarsíðu sinni og segir að eldri borgarar, launþegar, hefðu aldrei greitt reglulega alla sína starfsævi í lífeyrissjóð, ef þeir hefðu vitað,að ætlunin væri að skerða lífeyri almannatrygginga af þeim sökum. Það hafi verið komið aftan að fólkinu sem sparað hefur alla sína starfsævi í lífeyrissjóðum.
„Mál þetta hefur verið rætt í stjórn Felags eldri borgara í Reykjavík og þar hefur komið fram tillaga um að hefja undirbúning að málsókn. Aðalfundur félagsins verður haldinn eftir nokkra daga. Mönnum er ljóst,að mál þetta krefst mikils undirbúnings.Það þarf að safna upplýsingum því til staðfestingar að lífeyrissjóðirnir hafu átt að vera viðbót við almannnatryggingar. Öllu verkalýðsfólki, sem kom að og fylgdist með stofnun lífeyrissjóðanna ber saman um, að lífeyrissjóðirnir hafi átt að vera viðbót við almannatryggingar. Aldrei var minnst á, að lífeyrissjóðirnir hafi átt að valda skerðingu á réttindum félagsmanna í almannatryggingum. Ef sú hugmynd hefði komið fram hefði sennilega enginn greitt í lífeyrissjóð.
Þetta atriði er ef til vill þungamiðja málsins: Forsenda þess að greiða í lífeyrissjóð var sú að lífeyrissjóðirnir yrðu hrein viðbót við almannatryggingar,“ segir Björgvin Guðmundsson.