Unnur Brá Konráðsdóttir, forseti Alþingis, og Silvana Koch-Mehrin, stofnandi Women in Parliaments Global Forum, undirrituðu síðastliðinn föstudag, 10. febrúar 2017, sameiginlega yfirlýsingu um að halda ársfund þessara alþjóðlegu samtaka kvenþingmanna á Íslandi í lok nóvember nú í ár.
Markmið samtakanna er að efla tengslanet kvenna á þingum og allar konur sem eiga sæti á þjóðþingum, eða á Evrópuþinginu, eiga rétt til aðildar. Búast má við nokkur hundruð þátttakendum víðs vegar úr heiminum á ársfundinn sem verður vettvangur til að miðla reynslu af leiðum til að efla jafnrétti og þátttöku kvenna í stjórnmálum og á opinberum vettvangi. Árangur Íslands í jafnréttismálum var forsvarsmönnum samtakanna innblástur til að leita samstarfs um að halda ársfundinn hér á landi.
Samhliða ársfundi Women in Parliaments Global Forum munu samtök kvenþjóðarleiðtoga, Council of World Women Leaders, halda fund sinn hér á landi. Samtökin voru stofnuð af Vigdísi Finnbogadóttur, fyrrverandi forseta Íslands, árið 1996 og er hún jafnframt heiðursfélagi Women in Parliaments Global Forum.
Hanna Birna Kristjánsdóttir, fv. ráðherra og borgarstjóri, er formaður stjórnar Women in Parliaments Global Forum.