Þrír þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa lagt fram þingsályktunartillögu, þar sem fjármálaráðherra verði falið að skipa nefnd sem móti langtímaáætlun um sölu ríkiseigna, lækkun á skuldum ríkissjóðs og fjárfestingu í innviðum.
Nefndin verði skipuð þremur sérfræðingum á sviði hagfræði, fjármála og lögfræði. Nefndin skili áfangaskýrslu eigi síðar en 31. maí 2017 og lokaskýrslu eigi síðar en 10. október 2017.
Fyrsti flutningmaður tillögunnar er Óli Björn Kárason, en Brynjar Níelsson og Haraldur Benediktsson leggja hana einnig fram. Í áfangaskýrslu verði úttekt á eignum ríkissjóðs og annarra ríkisaðila, þar á meðal jörðum og öðrum fasteignum og beinum og óbeinum eignarhlutum í fyrirtækjum, hvort sem er í formi hluta- eða stofnfjár eða með öðrum hætti.
Sérstaklega verði tilgreind fyrirtæki sem eru beint eða óbeint í meirihlutaeigu ríkissjóðs eða annarra ríkisaðila.
Í tillögunni segir að skuldsetning ríkissjóðs og gríðarlegar vaxtagreiðslur hafi lamandi áhrif á íslenskt efnahagslíf og hamli getu ríkisins til að veita þá þjónustu sem ætlast er til og lækka álögur á launafólk og fyrirtæki. Á undanförnum árum hafi fjármagnskostnaður verið þriðji stærsti útgjaldaliður ríkissjóðs. Fjármagnskostnaður ríkissjóðs á árunum 2009–2015 nam samtals tæpum 526 milljörðum kr. á verðlagi hvers árs.
Kostnaðurinn jafngildir því að hver fjögurra manna fjölskylda hafi þurft að bera um 6,3 milljónir kr. í formi hærri skatta og lakari þjónustu. Sé tekið mið af ríkisreikningi 2015 jafngilti fjármagnskostnaður ríkissjóðs tæplega 60% af greiddum tekjuskatti einstaklinga. Þannig er hægt að halda því fram að sex krónur af hverjum tíu sem ríkið innheimti í tekjuskatt af einstaklingum hafi runnið til greiðslu vaxta.
„ Með nokkurri einföldun má segja að Íslendingar standi frammi fyrir tveimur kostum. Annars vegar getur ríkið áfram átt fyrirtæki, hús, jarðir og fleira og búið við þungar vaxtagreiðslur á komandi árum með tilheyrandi lakari þjónustu og hærri sköttum. Hins vegar er hægt að selja hluta eigna ríkisins og greiða niður skuldir. Þar með lækka vaxtagreiðslur og fjármunina sem sparast má nýta til að byggja upp heilbrigðis-, mennta- og samgöngukerfi og lækka skatta,“ segir ennfremur í greinargerð með tillögunni.