Hanna Katrín Friðriksson þingflokksformaður Viðreisnar segir að stjórnarandstaðan tali markvisst um Viðreisn og Bjarta framtíð sem litla valdalausa aðila sem hafi gengist Sjálfstæðisflokknum á hönd og að Birgitta Jónsdóttir þingmaður Pírata sé einn skipuleggenda þeirrar orðræðu.
Undir liðnum Störf þingsins á Alþingi í dag ræddi Birgitta um ummæli Hönnu Katrínar um helgina þar sem hún sagði að fylgistap Viðreisnar og Bjartrar framtíðar mætti rekja til áherslu stjórnarandstöðunnar á að heimfæra góðu verk ríkisstjórnarinnar upp á Sjálfstæðisflokkinn og þannig draga úr störfum Viðreisnar og Bjartrar framtíðar:
Mig langar í ljósi þessa að spyrja háttvirtan þingmann hvað það sé nákvæmlega sem við þingmenn stjórnarandstöðunnar höfum gert til að ausa lofi á Sjálfstæðisflokkinn. Hvað ætlar háttvirtur þingmaður að gera til að bregðast við því vantrausti sem hefur komið fram í skoðanakönnunum undanfarið, annað en að beina fingri að einhverjum öðrum?
spurði Birgitta. Hanna Katrín sagði að ummæli sín í Silfrinu væru viðurkenning og hún hefði bara minnst á þetta í framhjáhlaupi. Taldi hún upp verkefni sem ríkisstjórnin væri að vinna að, til dæmis innleiðing jafnlaunavottunar, breytingar á lagaumhverfi mjólkuriðnaðarins og endurskoðun búvörusamnings, verkefni sem ríkisstjórn án Viðreisnar myndi ekki vinna að:
Öll þessi mál eru unnin með hagsmuni almennings að leiðarljósi. Öll voru þau uppi á borðinu í kosningabaráttunni. Þið hafið endalaust notið þess, svo ég svari því nú til, (Forseti hringir.) og það er ekki hægt annað en að fara bara í umræðu ykkar í fjölmiðlum almennt, ætíð spyrt okkur við Sjálfstæðisflokkinn sem litla bróður, sem litla valdalausa aðilann, að við höfum gengist honum á hönd og svo framvegis. Þú hlýtur að þekkja orðræðuna vegna þess að þú hlýtur að vera ein af skipuleggjendunum. En þannig er þetta.