Minnihluti Allsherjar- og menntamálanefndar hefur óskað eftir sérstökum fundi nefndarinnar vegna nýfallins dóms Mannréttindadómstóls Evrópu í máli Steingríms Sævarrs Ólafssonar. Eins og greint var frá í gær komst Mannréttindadómstóllinn að þeirri niðurstöðu að ríkið hefði brotið á tjáningarfrelsi Steingríms, sem þá var ritstjóri Pressunnar með því að dæma hann til að borga Ægi Geirdal miskabætur fyrir að skrifa frétt upp úr ummælum tveggja systra sem sökuðu Ægi um að hafa beitt þær kynferðisofbeldi í æsku, en þegar fréttin var skrifuð var Ægi í framboði til Stjórnlagaþings.
Sjá frétt Pressunnar frá því í gær: Ríkið braut gegn fyrrverandi ritstjóra Pressunnar
Minnihluti nefndarinnar, sem samanstendur af þingmönnunum Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur, Andrési Inga, Eygló Harðardóttur og Gunnari Hrafni Jónssyni, telur dóminn vekja upp spurningar um núverandi lagaumgjörð tjáningarfrelsis á Íslandi og að málefnið þarfnist frekari skoðunar. Hefur því verið óskað eftir því að nefndin haldi sérstakan fund og boði til sín álitsgjafa og sérfræðinga til þess að ræða málið sem allra fyrst.
Efni fundarins mun varða hvernig bæta mætti íslenska lagaumgjörð til þess að tryggja betur vernd tjáningarfrelsis á Íslandi sem og komast að því hvernig best verði tryggt að Ísland uppfylli kröfur Mannréttindasáttmála Evrópu um vernd tjáningarfrelsis, sem og sambærilegra ákvæða í öðrum mannréttindasáttmálum sem ríkið hefur gengist við. Minnihlutinn hefur því óskað eftir að fá fulltrúa frá Hæstarétti, dómsmálaráðuneytinu, menntamálaráðuneytinu, mannréttindaskrifstofu Íslands eða mannréttindaskrifstofu Háskóla Íslands, sérfræðinga í dómum Mannréttindadómsstóls Evrópu og fulltrúa fjölmiðla.