fbpx
Mánudagur 14.júlí 2025
Eyjan

Fiskeldi næsta stóriðja?

Ritstjórn Eyjunnar
Sunnudaginn 12. mars 2017 15:26

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Gunnar Steinn hjá Löxum fiskeldi svarar fyrirspurn en fjölmennt var á kynningarfundi um fiskeldismál í Grunnskóla Reyðarfjarðar í síðustu viku.

„Þessir aðilar fara hér um firðina og vilja festa sér leyfi fyrir sinni starfsemi algjörlega þvert ofaní þá stefnu sem mörkuð hefur verið um uppbyggingu í ferðaþjónustu á svæðinu,“ segir Guðröður Hákonarson formaður Veiðifélags Norðfjarðarár og ferðaþjónustubóndi á Norðfirði en hann ásamt fleirum gera alvarlegar athugasemdir við fyrirætlanir fiskeldisfyrirtækja sem sækja nú um leyfi fyrir tugþúsunda tonna fiskeldi allt frá Berufirði og norður á Seyðisfjörð. Hann líkir þessum aðilum sem við hunda sem merkja sér svæði til að festa sér tík á lóðaríi en fundur um fiskeldismál var haldinn í Grunnskólanum á Reyðarfirði í lok síðustu viku. Fundinum var ætlað að upplýsa íbúa og aðra um stöðu þessara áforma í sveitarfélaginu. Frummælendur auk Páls bæjarstjóra voru frá Hafrannsóknarstofnun, Skipulagsstofnun og Löxum fiskeldi, sem hafa fengið leyfi fyrir fiskeldi í Reyðarfirði.

Fiskeldi næsta stóriðja?

Guðröður segir að vissulega sé eðlilegt að horfa til fiskeldis eins og hvers annars iðnaðar sem sé úthlutað svæðum til atvinnuuppbyggingar en að skilgreina verði innan sveitarfélagsins hvaða svæði séu ætluð iðnaði og tengdri starfsemi og hvaða svæði eigi að vernda með tilliti til nærumhverfisins og uppbyggingar annarrar atvinnustarfsemi eins og ferðaþjónustu.

Áform eru uppi um framleiðslu á allt að 50 þús. tonnum af eldisfiski innan sveitarfélagsins en burðarþolsmat mun skera úr um hver heildarframleiðsla getur orðið. Ljóst er þó að burðarþol á Reyðarfirði og Fáskrúðsfirði hefur verið metið samtals 35.000 tonn og miða áætlanir Fiskeldis Austfjarða og Laxa við að festa sér starfsleyfi út frá þeim tölum. Mjóifjörður og Norðfjarðarflói ásamt Stöðvarfirði eru enn í mati. Laxar fiskeldi hefja í sumar framleiðslu vegna 6.000 tonna starfsleyfis félagsins í Reyðarfirði.

Vilja ráða yfir fjörðunum

Á fundinum fór Páll Björgvin Guðmundsson bæjarstjóri yfir fiskeldismálin vítt og breitt frá sjónarhóli sveitarfélagsins en ítrekaði þá afstöðu sveitarfélagsins að eðlilegast væri að sveitarfélög hefðu skipulagsvald yfir fjörðum innan sinna marka í samræmi við umsögn bæjarfélagsins um nýtt frumvarp til laga sem takmarkar ákvörðunarvald sveitarfélaganna mikið. Hann bendir á að sveitarfélagið hafi þurft að kæra starfsleyfi Laxa á sínum tíma til þess að tryggja atriði eins og að staðsetningar kvía og eldisstarfsemi hindraði örugglega ekki siglingaleiðir í Reyðarfirði og að ákvæði kæmust í samninga um ábyrgð fyrirtækisins á að hreinsa til eftir sig ef starfsemi yrði hætt. Slík ákvæði eru ekki á meðal þeirra skilyrða sem stjórnvöld setja fyrir starfsleyfum og hafa margir fundið að þeim galla á framkvæmd leyfisveitinga.

Líflegar fyrirspurnir

Á fundinum fjallaði Héðinn Valdimarsson, sviðsstjóri hjá Hafrannsóknarstofnun, um burðarþol fjarða og hvernig stofnunin færi að því að finna reikna slíkt út en hann tók dæmi af Vestfjörðum og að austan til að veita innsýn í aðferðirnar.

Sigmar Arnar Steingrímsson, sérfræðingur á umhverfismatssviði Skipulagsstofnunar fjallaði á fundinum um ferlið við mat á umhverfisáhrifum hvað varðar fiskeldi en síðastur á mælendaskrá var Gunnar Steinn Gunnarsson, rekstrarstjóri Laxa fiskeldis og kynnti hann áform fyrirtækisins hvað varðar fiskeldi í Fjarðabyggð. Sagði hann frá því að búið væri að ráða 10 starfsmenn og kvíar ásamt öðrum búnaði væru komnar á Reyðarfjörð og væru tilbúnar til uppsetningar.

Hafsteinn Guðfinnsson, sérfræðingur á umhverfissviði Hafrannsóknarstofnunar, Hólmfríður Bjarnadóttir, sviðsstjóri hjá Skipulagsstofnun og Jón Björn Hákonarson, forseti bæjarstjórnar bættust við hóp þeirra sem sátu fyrir svörum eftir hlé á fundinum og komu fram fjöldi fyrirspurna af ýmsum toga. Má segja að umræðan um þessi mál hafi bæði verið drifin áfram af áhuga og gagnrýnum spurningum en ljóst er að fiskeldi getur aukið fjölbreytni í störfum í sveitarfélaginu til frambúðar. Það magn af fiski sem um ræðir getur fært sveitarfélaginu beinar tekjur upp á hundruði milljóna á ársgrundvelli en ekki eru allir á eitt sáttir um það hver áhrif fiskeldis geta orðið á náttúrulegt lífríki svæðisins.

Áætlað dæmi Laxa fiskeldis

Ef miðað er við 20.000 tonna framleiðslu smkv. matsáætlun Laxa munu allt að 140 ársverk skapast sem sem skiptast í 80 störf við eldi, slátrun og vinnslu og 60 störf vegna rekstar og viðhalds. Á meðal starfanna eru störf sem krefjast sérmenntunar í eldi og stjórnun framleiðslunnar. Einnig benda Laxa-menn á jákvæð margfeldisáhrif framleiðslunnar á flutningsaðila, hafnarstarfsemi, netagerð og fleira.

Áætlaðar tekjur bæjarsjóðs og hafnarsjóðs gætu samkvæmt þessum áætlunum gefið 120 -135 m.kr. á ári í hafnartengd gjöld eftir útflutningsverðmæti, en einnig 65-150 m.kr. á ári í fasteignagjöld allt eftir stærð vinnslustöðvar og nýtingarhlutfalli lóðar. Þá séu ótaldar

útsvarstekjur sem gætu orðið 100 til 130 m.kr. í ljósi nýrra starfa.

 

Birtist fyrst í Austurlandi. Smelltu hér til að lesa blaðið í heild sinni.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 2 dögum

„Komnir nýir krakkar í bekkinn sem segi bara hingað og ekki lengra“

„Komnir nýir krakkar í bekkinn sem segi bara hingað og ekki lengra“
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Orðið á götunni: Ríkisstjórnin sker stjórnarandstöðuna úr snörunni en uppsker engar þakkir – hvað hefði Davíð Oddsson gert?

Orðið á götunni: Ríkisstjórnin sker stjórnarandstöðuna úr snörunni en uppsker engar þakkir – hvað hefði Davíð Oddsson gert?
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Kjarnorkuákvæðinu beitt

Kjarnorkuákvæðinu beitt
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Jón Gnarr telur sig vita hvað vakir fyrir stjórnarandstöðunni í „lengsta eftirpartý Íslandssögunnar“

Jón Gnarr telur sig vita hvað vakir fyrir stjórnarandstöðunni í „lengsta eftirpartý Íslandssögunnar“